Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:52:15 (5707)

2000-03-23 12:52:15# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var tíðrætt um gullgerðarvél og gullmola. Hv. þm. er einn fárra þingmanna sem situr í stjórn lífeyrissjóðs og stendur að braski alla daga eins og hann komst svo fallega að orði, og ætti að vita að við verðmat fyrirtækja er tekið tillit til væntanlegs hagnaðs fyrirtækis. Og nú spyr ég hv. þm., segjum að þessi gullmoli, þessi gullgerðarvél yrði seld, og hann ætti að taka afstöðu til þess í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að kaupa hlutabréf í því fyrirtæki, hvernig mundi hann meta þá gullgerðarvél? Mundi hann meta hana á eigin virði eða mundi hann meta einhvers væntanlegan hagnað af gullgæsinni?

Svo er önnur spurning til hv. þm. Nú er verið að selja Landssímann eins og hv. þm. kom hérna að og ekki er verið að tala um 10 milljarða, eins og eigið féð er, nei, það er verið að tala um 30, 40 og jafnvel miklu fleiri milljarða. Hvað er verið að borga fyrir, umfram eigið fé? Hvað er það eiginlega, hv. þm.? Hvað er verið að borga fyrir, umfram eigið fé? Það skyldi nú ekki vera væntanlegur hagnaður allrar framtíðar sem verið er að borga fyrir?

Og svo vil ég þakka hv. þm. fyrir að hamra ofan í alþjóð að flugstöðin verði seld.