Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:53:48 (5708)

2000-03-23 12:53:48# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal víkur að verðlagningu á þessu fyrirtæki þegar kemur til þess að selja það, því ég held að til standi að gera það. Þá vísa ég til sögunnar og reynslunnar, ég vísa til sölunnar á SR-mjöli, ég vísa til sölu á Áburðarverksmiðju ríkisins og ég gæti talið upp fleiri fyrirtæki og stofnanir sem hafa verið seldar langt undir eðlilegu verði. Við erum ekki komin að því stigi núna að ákveða sölu á þessu fyrirtæki, en ég tel að með þeirri breytingu sem verið er að gera núna sé verið að búa í haginn fyrir slíka breytingu. Ég hef einfaldlega alltaf sagt og gerði það þegar verið var að breyta Pósti og síma á sínum tíma í hlutafélag, að ég skildi þá sem vildu gera þetta með það fyrir augum að koma því á markað og selja fyrirtækið, og það væri rökrétt á vissan hátt að innleiða þar nýtt eftirlitsform. Í stað almannavaldsins væri eftirlit markaðarins. Ég skildi þetta mætavel þótt ég sé andvígur því persónulega. Ég er andvígur því að stíga það skref yfir höfuð að gera Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er fyrirtæki og stofnun í eigu okkar allra, við höfum byggt hana upp sameiginlega, reyndar fengið peninga einnig annars staðar frá, frá Bandaríkjamönnum í þessu tilviki, en við eigum hana sameiginlega og ég vil að þetta verði áfram sameiginleg eign okkar. Við erum í raun ekki að greiða fyrir samkeppni, við erum með í höndunum fyrirtæki sem mun verða einokunarfyrirtæki þar sem markaðslögmálum verður komið við að mjög takmörkuðu leyti. Og við eigum að halda þessari stöð í eigu þjóðarinnar allrar.