Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:56:08 (5709)

2000-03-23 12:56:08# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það gladdi mig enn og aftur að heyra hv. þm. segja ,,þegar kemur að sölu``, því það er von mín og trú að það verði gert einhvern tíma þó að menn beri á móti því og séu ekki eins sannfærðir og hv. þm. En hv. þm. nefndi Áburðarverksmiðju ríkisins og SR-mjöl og ég spyr hv. þm. sem þá sat í stjórn Lífeyrsissjóðs starfsmanna ríkisins, af hverju bauð ekki Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins í þessi fyrirtæki fyrst þau voru svona miklir gullmolar? Og hefði getað náð fram miklum hagnaði væntanlega, sem ég reyndar sé nú ekki alveg, fyrir hönd lífeyrisþega sinna.

Hv. þm. svaraði ekki spurningunni sem ég spurði áðan þegar Landssíminn verður seldur, segjum á 40 milljarða og eigið fé er 10 milljarðar, hvað eru 30 milljarðarnir sem þarna eru á milli? Hvað er það? Er það ekki væntanlegur hagnaður af þessu fyrirtæki um alla framtíð?