Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:02:04 (5718)

2000-03-23 14:02:04# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:02]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hafði ákveðna þörf fyrir að snúa örlítið út úr máli mínu. Það kom reyndar skýrt fram, ég þakka hv. þm. fyrir að svara því, að hann er hvorki með né á móti þessu máli. Hann talaði á þeim nótum og þá hef ég í raun skilið ræðu hv. þm. alveg rétt.

Það er hins vegar mikill misskilningur hjá hv. þm. að halda að ég sé fyrst og fremst að hugsa um þetta mál út af breytingu á kjördæmaskipan. (GÁS: Gott að vita það líka.) Auðvitað tengist Flugstöð Leifs Eiríkssonar öllu landinu eins og önnur ríkisfyrirtæki. Að þessu leyti er ég greinilega örlítið víðsýnni en hv. þm. vegna þess að þetta tengist landinu í heild.

Mér finnst mjög eðlilegt, herra forseti, að þegar valið verður í stjórn þessa fyrirtækis þá verði það hæft fólk og það er ekkert óeðlilegt að ákveðið pólitískt jafnvægi sé í þeim efnum eins og reyndar hefur verið gætt að í mjög mörgum hlutafélögum sem stofnuð hafa verið á vegum ríkisins. Að því leyti fara skoðanir okkar saman. Ég hef hins vegar þá staðföstu trú að nútímalegra sé að gera fyrirtæki eins og þetta að hlutafélagi. Ég er klár á því að ákvarðanataka verður mun skjótari með þeim hætti heldur en þegar fyrirtækið heyrir beint undir utanrrn. Það kom reyndar komið mjög vel fram í ræðu hæstv. utanrrh. að embættismenn eiga ekki að vera að vasast í verslunarrekstri og þess háttar. Þannig fara skoðanir okkar saman að þessu leyti.