Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:07:03 (5720)

2000-03-23 14:07:03# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Mér er sagt að stærsta snyrtivöruverslun landsins sé í Fríhöfninni í Keflavík. Hún heyrir beint undir hæstv. utanrrh. Þegar hann ræðir við forstöðumenn þeirrar stofnunar fjalla þeir kannski um álagningu á ilmvötnum og í næstu andrá fer hann að ræða um afstöðu Íslands til stórra mála á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þetta er náttúrlega fáránlegt.

Herra forseti. Fríhafnir eru undanþegnar öllum gjöldum til ríkisins og jafnvel til sveitarfélaga. Þetta er eins konar skattaparadís. Þetta er svona útópía frjálshyggjumanna, ekkert ríki. En þar er einn hængur á. Menn þurfa að kaupa sér farmiða til að njóta gæðanna. Þess vegna eru það hagsmunir flugfélaga um allan heim og ferðaskrifstofa að fríhafnir séu sem víðast við flugvelli til þess að hvetja fólk til þess að fljúga. Almenningur nýtur ekki þessara skattfríðinda eða skattaparadísarinnar nema með því að fljúga.

Hv. þingmenn geta ímyndað sér hvað mundi gerast ef Kringlan fengi svipuð leyfi hérna að öðru óbreyttu, ef hún þyrfti ekki að borga virðisaukaskatt, ekki tolla eða önnur gjöld af allri veltu sinni. Það yrði aldeilis hagnaður af því fyrirtæki. Það yrði mikils virði. Fríhafnir eru þannig í eðli sínu gullkista og auðlind fyrir þá sem reka þær. Þannig geta menn líka notað þær. Í kringum fríhafnir myndast verslunarmiðstöðvar á ólíklegustu stöðum, jafnvel uppi á miðri Miðnesheiði. Það er alltaf jafnskrýtið, herra forseti, að keyra þarna í eyðimörkinni um miðjan vetur í snjókomu og byl en vera allt í einu kominn inn í glæsilega verslunarmiðstöð. Einasti hvatinn fyrir þessari miðstöð þarna er fríhöfn.

Nú er það þannig, herra forseti, að ég er á móti fríhöfnum. Ég er á móti því að mismuna fólki í sköttum. En það er önnur saga, ég breyti því væntanlega ekki um allan heim.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í Evrópusambandinu undanfarið. Þar er eitt ríki í mótun og hluti af því er að loka fríhöfnum, loka þessum skattaparadísum sem eru úti um allt eða þá skipta þeim upp. Það mun gera það að verkum að okkar fríhöfn fær meira vægi vegna þess að hún stendur í samkeppni við fríhafnir annars staðar. Það er hugsanlegt að í tengslum við það samkomulag sem við samþykktum í gær um Schengen-samninginn gefist ný sóknarfæri í því að Keflavíkurflugvöllur verði sem dyr t.d. Ameríku og Japans til Evrópu. Fólk sem kemur inn til Evrópu gæti farið í Fríhöfnina í Keflavík á leið sinni til Evrópu og þar væri feiknarmikið sóknarfæri fyrir duglega bisnessmenn, herra forseti. Það gæti gefið duglegum framkvæmdamönnum tækifæri til að láta Fríhöfnina skila miklu meiri hagnaði en hún nokkurn tíma mundi gera undir opinberri forsjá.

En Fríhöfnin er líka í samkeppni við verslun hér innan lands. Hún hefur farið illa með verslun innan lands, virkilega illa. Það er engin tilviljun að stærsta snyrtivöruverslun landsins er í Fríhöfninni. Það er vegna skattfrelsisins. Þetta hefur náttúrlega komið mjög illa niður á snyrtivöruverslunum á landinu sem og annarri verslun sem er í beinni samkeppni þar við, þar á meðal ÁTVR sem verður af miklum viðskiptum vegna Fríhafnarinnar. Ég reikna ekki með því að við getum breytt því vegna þess að þessar fríhafnir eru um allan heim.

Það er svo merkilegt að þegar maður les þetta frv. þá er hvergi talað um Fríhöfnina. Hún er ekki nefnd í frv. en þó á hún að vera sá dráttarklár sem dregur ríkissjóð upp úr skuldafeninu sem þessar miklu framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli hafa valdið. Þess er þó getið í greinargerð að hæstv. utanrrh. hafi tekið þá ákvörðun að fella rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli undir starfsemi flugstöðvarinnar til að styrkja enn frekar fjárhagslegan grundvöll þeirrar uppbyggingar sem nú stendur yfir. Meiningin er því, þó það komi ekki fram í frv., að nota Fríhöfnina sem dráttarklár til að greiða niður þær skuldir sem þessar miklu fjárfestingar valda.

Þegar við ræðum um stofnun hlutafélags um rekstur sem er á höndum ríkisins þá þarf alltaf að ræða um hag starfsmanna. Það er miður þegar þeir frétta það ekki fyrstir, heldur frétta úr fjölmiðlum að það eigi að fara að breyta rekstrinum. Hér virðist hafa orðið slys og hæstv. utanrrh. á alla mína samúð fyrir að hafa lent í því slysi. Hann gat þess að hann hefði viljað tilkynna starfsmönnum þetta fyrst.

Það hefur hins vegar sýnt sig í þeim fyrirtækjum sem hafa verið einkavædd hingað til að fyrir flesta starfsmenn er það til bóta. Launakerfi ríkisins er það niðurnjörvað og stíft að starfsmenn hafa ekki getað notið hæfileika sinna og dugnaðar. Þess vegna er við því að búast og væntanlega kemur það upp að þegar búið er að breyta þessu í hlutafélag þá eru meiri möguleikar til þess að greiða starfsfólki eftir hæfileikum og getu. Það kæmi væntanlega konum hvað mest til góða þar sem þeim hefur oft ekki verið greitt í samræmi við getu, því miður.

Herra forseti. Í 6. gr. er gert ráð fyrir að við stofnun félagsins verði allt hlutafé þess í eigu íslenska ríkisins og ráðstöfun þess og sala háð samþykki Alþingis. Þetta þykir mér að sjálfsögðu miður af því að ég vil ganga enn lengra. Þetta er hins vegar ágætis skref og ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem reyndar er ekki viðstaddur núna, fyrir að benda á það sí og æ og undirstrika að flugstöðin verði seld. Það þykir mér mjög jákvætt þó honum þyki það ekki.

En þar sem hér er um ,,bisness`` að ræða, herra forseti, þá legg ég til að hv. utanrmn., sem stendur jafnan ekki daglega í bisness, fái góða ráðgjafa úr atvinnulífinu til þess að hjálpa sér við að fara yfir þetta frv. Þetta er frv. um bisness, atvinnurekstur og því þarf að líta á dæmið í heild, hvernig menn sjá þetta dæmi fyrir sér ef Fríhöfnin yrði látin fylgja með. Segjum að það yrði gerður samningur milli ríkisins og þessa hlutafélags um að Fríhöfnin njóti skattfríðinda eins og álverið og fleiri fyrirtæki, óbreytt í tíu eða fimmtán ár og svo yrði dæmið selt. Þá hygg ég að svo miklir peningar fáist fyrir að allar skuldir ríkissjóðs vegna flughafnarinnar mundu greiðast fyrir andvirðið og kannski gott betur. Þeir markaðsaðilar sem kæmu inn í dæmið gætu hugsanlega átt möguleika á aukningu með því að markaðsvæða Fríhöfnina út um allan heim þannig að umferðin stóraukist, ekki til Íslands heldur milli annarra landa og Evrópu og frá Evrópu til annarra landa. Þetta sjá náttúrlega bisnessmenn en ekki endilega hv. utanrmn. sem ekki er að fjalla um svona viðskipti alla daga.

[14:15]

Ég legg því til að utanrmn. fái góða viðskiptamenn úr atvinnulífinu til að ráðleggja sér hvernig best er að standa að slíku dæmi og gæta hagsmuna ríkissjóðs sem best. Þá er kannski hægt að breyta þessu skuldaáhyggjudæmi yfir í gullgerðarvél, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um, og ég reikna með því að þegar á að fara að selja þetta fyrirtæki, sem hv. þm. er búinn að lýsa hér yfir aftur og aftur að verði gert, muni Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með hv. þm. Ögmund Jónasson í stjórn verða fús til að borga mikið fyrir þessa gullgerðarvél og það muni koma ríkissjóði til góða.

Ég má til með, herra forseti, að geta hérna um leiðinlegt orð í 11. gr. Þar stendur: ,,Við niðurlagningu stofnunarinnar ...`` Niðurlagning er í mínum huga alltaf eins og að leggja síld í dós. Ég mundi vilja að menn notuðu annað orð, t.d. þegar stofnunin verður lögð niður eða eitthvað slíkt. En þetta er væntanlega málefni nefndarinnar sem fer yfir þetta.

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við frv. Ég tel að þetta sé mjög jákvætt skref í átt að meiru og ég ætla að vona að menn taki sér ekki allt of langan tíma til að átta sig á því að það sé skynsamlegast af öllu að ríkið selji þetta hlutafélag því það eru einkaaðilar sem geta gert úr þessu mikinn hagnað til hagsbóta fyrir sjálfa sig og það kemur væntanlega fram í háu verði til hagsbóta fyrir ríkissjóð.