Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:17:23 (5721)

2000-03-23 14:17:23# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það er gjarnan svo þegar hv. þm. Pétur Blöndal kemur í þennan stól þá talar hann í svörtu og hvítu. Og mér fannst, herra forseti, hv. þm. taka dálítið stórt upp í sig þegar hann talaði um að ríkisstarfsmenn njóti ekki hæfileika sinna. Það vill nú þannig til að fjölmargir menn eru starfsmenn ríkisins að sjálfsögðu og þar er auðvitað mjög margt hæfileikafólk, þannig að rekstrarformið eitt og sér segir ekki allt um það hvort menn njóti hæfileika sinna eða ekki. Ég hnaut því í raun og veru um þessa stóru fullyrðingu. Við getum sagt: Veldur hver á heldur. Ég er sannfærður um að það eigi að hlutafélagsvæða þetta fyrirtæki en mér þykir, herra forseti, hv. þm. taka ansi stórt upp í sig þegar hann talar um að ríkisstarfsmenn njóti ekki hæfileika sinna í því rekstrarformi þar sem ríkisrekstur er. Því velti ég fyrir mér hvort hv. þm. sé að fullyrða það að allir þeir fjölmörgu starfsmenn ríkisins séu á hálfu gasi eða hálfum hraða af því einu að þeir eru starfsmenn ríkisins.