Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:18:59 (5722)

2000-03-23 14:18:59# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir sérstaklega vænt um að fá þessa athugasemd frá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni. Ég sagði að ríkisstarfsmenn njóti oft ekki hæfileika sinna. Ég stend við það. Þeir eru nefnilega margir á fullu gasi, en þeir njóta þess ekki.

Ég hef kynnst kennurum sem skila alveg frábæru starfi, herra forseti, og halda hv. þm. að þeir njóti þess einhvern veginn? Fá þeir hærri laun? Ónei. Þeir njóta þess einskis. Ég þekki frábæra starfsmenn ríkisins á heilbrigðissviðinu sem leggja sig mjög hart fram. Halda hv. þm. að þeir njóti þess einhvern veginn í launum? Ónei, það gerist ekki. Það hefur meira að segja ekki verið hægt þangað til núna nýverið að láta þá njóta þess. Nú er reyndar búið að breyta lögum þannig að forstöðumenn geta látið menn sem eru sérstaklega snjallir, sérstaklega duglegir, með sérstaklega mikla menntun eða mikla reynslu njóta þess. En því miður hefur það verið þannig hingað til að ríkisstarfsmenn hafa ekki notið hæfileika sinna og dugnaðar. Ég stend við það.

Það er ekki þar með sagt að þeir séu á hálfu gasi, alls ekki. Þeir eru margir alveg frábærir starfsmenn.