Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:46:34 (5727)

2000-03-23 14:46:34# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það var sérkennilegt upphafið á ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Hún eyddi drjúgum tíma af stuttum ræðutíma sínum í að fjalla um að hæstv. forsrh. tæki ekki þátt í þessari umræðu. Hún bjó til mikla kenningu um að hann væri nú laginn við að stinga sér undan ábyrgð, hann tæki ekki ábyrgð á óþægilegum málum og eitthvað fleira í þeim dúr. Í þetta fór drjúgur hluti af ræðutímanum.

Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Ég tel þennan málflutning ekki sæmandi jafnþingreyndum manni og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, formanni þingflokks Samfylkingarinnar. Auðvitað veit hv. þm. að forsrh. tekur ábyrgð á þeim málum sem hafa verið afgreidd og samþykkt í ríkisstjórninni. Auðvitað veit hv. þm. sem sjálf er fyrrv. ráðherra hvernig stjórnarfrumvörp ganga fyrir sig hér í þinginu. Stjórnarfrumvörp eru flutt hér af þeim ráðherra sem hefur forræði málsins, sem í þessu tilfelli er auðvitað hæstv. utanrrh. Ég veit ekki hvort hv. þm. er að gefa í skyn að hæstv. utanrrh. sé ekki treystandi til að fylgja þessu máli eftir og hæstv. forsrh. þurfi að halda í hendina á honum.

Svona málflutningur er alveg út í hött og eiginlega ekki boðlegur jafnágætum þingmanni og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Ég verð að segja að þessi endalausa minnimáttarkennd samfylkingarmanna í garð hæstv. forsrh. fer að verða brosleg.