Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:50:10 (5729)

2000-03-23 14:50:10# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það ekki rétta túlkun að það hafi sviðið undan þessum orðum. Mér fannst þau hins vegar afskaplega ómakleg og ekki sæma, eins og ég sagði, þessum ágæta hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, að vera með ummæli sem hún veit að eiga ekki við rök að styðjast. Það sæmir bara ekki jafnþingreyndum og ágætum þingmanni.

En hv. þm. sagði eitt mjög athyglisvert í þessu svari sínu núna. Hún sagði: Þjóðin hefur ekki hugmynd um hvernig mál ganga fyrir sig hér, þjóðin veit ekki hver hefur forræði málsins. Er það kannski skýringin á því að hv. þm. er að reyna að lauma því inn hjá þjóðinni í beinni útsendingu, að hæstv. forsrh. sé eitthvað að svíkjast undan merkjum og þori ekki að koma fram? Er verið að reyna að blekkja þjóðina sem ekki þekkir, eins og hún segir réttilega, hvernig málin ganga fyrir sig? Það finnst mér nú bara enn þá ómerkilegra en ég þorði að halda.

Varðandi það að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hafi annan stíl en Steingrímur Hermannsson þá segi ég nú bara: Sem betur fer.

Hæstv. forsrh. má hins vegar vel við una ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki önnur og stærri mál til að deila á hann fyrir en þetta.