Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:51:23 (5730)

2000-03-23 14:51:23# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað umhugsunarefni hvort maður á að koma aftur og svara þessu. Ég tek það hins vegar fram að ég hef ekki notað orðin ,,svíkjast undan merkjum``, það gerði hv. þm. Guðjón Guðmundsson. Ég notaði ekki orðin ,,þorir ekki að gangast við málum``, þau orð notaði hv. þm. Guðjón Guðmundsson.

Það er ekki ómerkilegt að draga það fram hver er handhafi og baráttumaður máls eða mála. Ég hef m.a. sagt frá því á mörgum fundum að ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi að það blasi við þeim sem á annað borð skoða þessi mál að ásýndin í þeim málum þar sem deilur rísa er alveg skýr, ásýndin á því hver hefur haldið utan um erfið mál er skýr. Hæstv. þáv. viðskrh. hélt á sínum tíma utan um erfið mál og margir hefðu talið að hann væri einn í ríkisstjórninni með þau, eða a.m.k. einn flokkur. Sama má segja um önnur mál sem hafa komið hér inn sem eru óþægileg og valda deilum úti í samfélaginu. Ég er að tala um ásýnd, ég er að tala um aðferðafræði. Þessi skoðun mín er alveg skýr og ég verð sömu skoðunar þar til ég sé að þetta breytist.