Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:52:55 (5731)

2000-03-23 14:52:55# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli ásökunum Rannveigar Guðmundsdóttur í garð Sjálfstfl. sem hún færði hér fram í upphafi máls síns áðan. Mér finnast þær bæði vera ósmekklegar og órökstuddar. Inntak þeirra var að Sjálfstfl. varpaði ábyrgð af sér yfir á samstarfsflokkinn þegar um erfið mál væri að ræða.

Hins vegar er alveg skýrt að það hefur aldrei staðið á Sjálfstfl. að styðja við stjórnarfrumvörp. Ég vil vekja alveg sérstaka athygli á því að forsrh. hefur hvað eftir annað gengið fram fyrir skjöldu til þess að verja ráðherra, einnig ráðherra úr samstarfsflokknum bæði í þessari ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum. Það hefur aldrei staðið á því. Mér finnst það sannarlega sýna málefnafátækt að vera með málflutning af þessu tagi.

Varðandi Schengen-málið, sem var sérstaklega nefnt hérna, var alveg ljóst að nokkrir þingmenn Sjálfstfl. voru bundnir við skyldustörf annars staðar og höfðu fjarvistarleyfi. Þar á meðal var t.d. formaður utanrmn. sem ekki hefur getað tekið þátt í umræðunum um það mál sem hér er á dagskrá vegna þess að hann er bundinn erlendis. Það var vitað um afstöðu þeirra þingmanna sem sátu hjá fyrir fram þannig að það kom engum á óvart.