Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:54:41 (5732)

2000-03-23 14:54:41# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú að taka það fram að ég var hér með mjög málefnalega ræðu og notaði tíma minn ágætlega, kom m.a. með spurningar til utanrrh. sem ég treysti að teknar verði til athugunar í utanrmn., jafnvel að hann komi inn í umræðuna þegar hann kemur til baka og þetta mál verður tekið á dagskrá á ný. Ég hef ekki, herra forseti, verið með ásakanir. Ég veit þó ekki hvort sagt var ,,ásakanir`` eða hvaða orð var notað. Ég ætla nú ekki að leggja neinum orð í munn varðandi það. Ég hef heldur ekki gagnrýnt það að forsrh. hafi varið einhverja ráðherra ef þeir hafa lent í erfiðum málum. Ég hef ekki minnst á það.

Ég er að draga fram það sem mér og öðrum er alveg ljóst, að hæstv. forsrh. hefur sérstakt lag á því að vera fjarri óþægilegum málum sem valda deilum og eru á forræði samstarfsflokksins. Það er það sem mér hefur birst í þessum sal og þannig birtist það öðrum og það er umtalað í þjóðfélaginu. Það vekur mér furðu ef sjálfstæðismenn hafa sloppið við þá umræðu. Mér finnst sjálfsagt að draga það fram hér, í tilefni af orðum sem féllu, og ég á ábyggilega eftir að ræða það oftar. Það er ekki ómálefnalegt vegna þess að þetta er skoðun sem ég set fram.

Það að sjálfstæðismenn komi hér hver af öðrum til að verja foringja sinn og flokk segir mér að þeim er ekki jafn\-ókunnugt um þessa umræðu og þeir vilja vera láta.