Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:59:31 (5735)

2000-03-23 14:59:31# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu utan dagskrár eru upplýsingar sem heilbr.- og trn. Alþingis hefur fengið um að áætluð sparnaðaráform ríkisins í lyfjakostnaði upp á rúman milljarð, sem áttu að koma til framkvæmda á þessu ári, séu ekki líkleg til að standast nema til komi veruleg aukning á þátttöku neytenda í lyfjakostnaði.

Eftir að frjálsræði var aukið í lyfsölu hefur samkeppnin leitt af sér hagstæðari kjör til neytenda þar sem apótekin hafa veitt afslátt af hlutdeild þeirra í verði lyfja. Samkeppnin hefur þó ekki veitt ríkissjóði sama afsláttarhlut almennra skattgreiðenda í lyfjaverðinu. Útgjöld ríkisins vegna þessa málaflokks fara því vaxandi ár frá ári. Til að koma til móts við þau útgjöld hefur kostnaðarhlutdeild neytenda aftur verið aukin og fjármunir þannig aftur sóttir í vasa þeirra.

[15:00]

Ef fjárlagatölur frá árinu 1991 eru skoðaðar má sjá að kostnaður almannatrygginga vegna lyfja var þá um 2,4 milljarðar kr. en hefur farið ört vaxandi síðan og stefnir í það samkvæmt nýjum upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins að verða rúmlega 5 milljarðar kr. á þessu ári ef ekkert verður að gert.

Miðað við þróunina fyrstu tvo mánuði ársins stefnir í nokkra kostnaðaraukningu milli áranna 1999 og 2000 og eigi forsendur fjárlaga að standast þarf að spara 1,1 milljarð kr. í lyfjakostnaði á þessu ári.

Nú stefnir óðum í að fyrsta ársfjórðungi ljúki og enn hafa áformaðar tillögur ríkisstjórnarinnar um breytt kerfi í þessum efnum ekki litið dagsins ljós eða tillögur um hvernig þessum sparnaði skuli náð fram. Breytingar voru reyndar gerðar á reglugerð um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði um síðustu áramót þar sem lítillega var komið til móts við þennan vanda en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað er vandinn sem leysa þarf úr þó eftir sem áður rúmur milljarður. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2000 er því lýst hvernig átti að ná þessum sparnaði fram. Áformað var að endurskoða heildsölu- og smásöluálagningu lyfja og ráðast í aukin útboð á lyfjum til að bæta og styrkja skynsamlegt og hagkvæmt lyfjaval innan sem utan heilbrigðisstofnana.

Þá er áformað að taka upp nýtt fyrirkomulag á niðurgreiðslum almannatrygginga vegna lyfja að sænskri og danskri fyrirmynd sem gerir mögulegt að flytja greiðsluþátttöku ríkisins á einstaklingum sem að jafnaði nota lítil lyf yfir til einstaklinga eða sjúklinga sem raunverulega þurfa á meiri og dýrari lyfjum að halda. Þessi kerfisbreyting átti að vera undirstaða þess sparnaðar sem til átti að koma.

Í sjálfu sér er ég fylgjandi því að gera kerfisbreytingar í þessum efnum þar sem kerfið sem við búum við í dag er greinilega fullkomlega úr sér gengið. Það sem vekur furðu snýr hins vegar að bjartsýninni sem hrjáði stjórnvöld í desember þegar til stóð að koma breytingunni á innan ársins. Þær áætlanir hafa verið fullkomlega óraunsæjar og er það mat þeirra sem málið hafa skoðað að a.m.k. 7--10 mánuði taki að koma breytingunni á. Þeim mun lengra sem líður á árið virðist fátt annað til ráða en að auka verulega á kostnaðarhlutdeild sjúklinga eigi að ná þessum sparnaði fram. Þessi skoðun kom fram í umræðum á fundi heilbr.- og trn. Alþingis með forsvarsmönnum Tryggingastofnunar nýverið.

Herra forseti. Stjórnarandstaðan benti á það við fjárlagagerðina á hversu miklum brauðfótum þessi sparnaðaráform stóðu. Nágrannalöndin hafa tekið sér nokkur ár í að gera slíkar kerfisbreytingar og danska kerfið var meira að segja í endurskoðun um síðustu áramót þegar Íslendingar gengu bláeygir inn í fjárlagagerð með áform um að spara fleiri hundruð millj. kr. á grundvelli kerfisins innan ársins.

Herra forseti. Slík vinnubrögð eru til háborinnar skammar og ég undrast það mjög að svo virðist sem enginn utan stjórnarandstöðuþingmanna hafi sett spurningarmerki við þær hugmyndir við fjárlagagerðina og maður veltir því fyrir sér hvort eitthvert mark sé takandi á slíkum fjárlögum.

Það sem mestu skiptir í dag og er ástæða þess að málið er tekið upp utan dagskrár á Alþingi er hvernig skuli leyst úr þessu máli innan ársins. Áhyggjur mínar snúa ekki síst að því hvort hér standi til að velta milljarði yfir á lyfjanotendur á þessu ári og því óska ég eftir því að hæstv. heilbrrh. skýri stöðu máls þessa nánar fyrir þinginu.

Herra forseti. Ég vil í ljósi þess sem á undan segir beina eftirfarandi spurningum til hæstv. heilbrrh.:

Hversu miklum sparnaði skilaði reglugerðarbreytingin sem gerð var á greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði um síðustu áramót?

Hversu mikið jókst hlutur sjúklings með þeirri breytingu?

Hvernig hyggst ráðuneytið ná fram því sem út af stendur af þeim 1.100 millj. kr. sem þarf að spara?

Telur ráðherra raunhæft að ná þessum sparnaði fram á þessu ári eða stefnir í að forsendur fjárlaga standist ekki?

Mun hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði aukast verulega vegna áforma um þennan sparnað á árinu?