Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:13:56 (5739)

2000-03-23 15:13:56# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Á þessu máli eru ýmsar hliðar. Það sem er hvað alvarlegast er að það var ekki í fyrsta sinn á þessu ári sem stefnt var að því að spara í lyfjaútgjöldum og því miður virðist það ekki ætla að verða í fyrsta sinn sem ekki er staðið við þau sparnaðaráform.

Herra forseti. Áætlað var árið 1999 að spara um 300 millj. kr. í lyfjaútgjöldum. Niðurstaðan varð hins vegar sú að á fjáraukalögum þurfti að bæta við um 570 millj. kr. til að endar næðu saman og farið var um 600 millj. kr. fram úr fjárlögum árið 1999. Áætlað var á þessu yfirstandandi ári að spara milljarð í lyfjaútgjöldum. Margoft var í umræðum í fjárln. og í umræðum um fjáraukalög og fjárlög varað við að ekki lægju fyrir tillögur um hvernig ætti að ná þessum markmiðum og því miður, herra forseti, virðist svo vera enn í dag að ekki liggi þær tillögur fyrir sem sýna fram á að þessum markmiðum verði náð.

Minni hlutinn í fjárln. varaði þess vegna við þessum málaflokki og ýmsum öðrum, að markmiðin næðust ekki fram. Það verður að segjast, herra forseti, að þessar tillögur sem ætíð voru á leiðinni þegar um var spurt virðast enn vera á leiðinni og því verðum við að búast við því í lok þessa árs að enn á ný verði leitað eftir aukafjárveitingum til að ná endum saman.

Herra forseti. Ég vil endurtaka það sem við fulltrúar minni hlutans í fjárln. sögðum nokkrum sinnum, að því miður virðist það enn vera svo að þessi málaflokkur sé stjórnlaus.