Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:18:27 (5741)

2000-03-23 15:18:27# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa einsett sér að spyrna við fæti í kostnaði við heilbrigðisþjónustu, þar á meðal lyfjakostnaði. Nú er hæstv. ráðherra álasað fyrir bjartsýni.

Hér á landi höfum við einbeitt okkur að því að veita bestu þjónustu sem völ er á og í mörg ár hefur þróunin verið sú að lyfjakostnaður hefur aukist jafnvel um 10--20% á ári, eins og reifað var hér að framan. Þarna er átt við heildarkostnað við lyf. Erfitt hefur verið að sundurgreina þennan kostnað. Það er erfitt að fá nákvæma sundurliðun á kostnaði fyrri ára hjá Tryggingastofnun ríkisins og vantar enn heimild hjá tölvunefnd til að það megi gerast á fullnægjandi hátt. Þó er vitað að allan síðasta áratug hefur hlutfall haldist svipað milli þess sem tryggingarnar borga annars vegar og almenningur hins vegar. Hlutdeild almennings hefur haldist nokkuð svipuð, þar kemur áreiðanlega til aukin samkeppni í lyfsölu og hefur áhrif á þessar tölur.

Á ráðstefnu sem ég sótti sl. sumar voru kynntar tölur um lyfjakostnað á Norðurlöndum þar sem Noregur skráðist langlægstur en Ísland hæst. Ef við gáum aðeins bak við tjöldin þá vitum við að á markaðinn koma ný lyf, ný og betri lyf. Þegar litið er á kostnað við þau verður með réttu að draga frá þeim kostnaði það sem sparast annars staðar. Það er ekki auðvelt verk. Þar er um að ræða að fólk getur frekar sótt vinnu en áður, þarf kannski síður að vistast á sjúkrahúsum, þarf minna af rannsóknum. Það sem erfiðast er að mæla er að sumir geta öðlast betra líf með nýjum lyfjum. Hvers virði er allt þetta í reikningsdæminu?

Starf Tryggingastofnunar ríkisins og landlæknis hefur verið til fyrirmyndar, m.a. með lyfjavali svokölluðu. Ábendingar frá þeim og vinna lækna hefur leitt til þess að læknar eru mun meðvitaðri um kostnað lyfja en áður, ég fullyrði það. Það er rétt að undirstrika mikilvægi þess að heilbrigðisyfirvöld hafi náið samstarf við læknastéttina hvað þetta varðar.

Tími minn er á þrotum, virðulegi forseti, en ég ætlaði þó að segja í lokin að ég tel langlíklegast að það að efla grunnþjónustuna dragi úr kostnaði heilbrigðisþjónustunnar. Það held ég að við ráðherrann getum verið sammála um.