Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:27:11 (5745)

2000-03-23 15:27:11# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunum. Niðurstaðan af umræðunni er hins vegar sú, eins og ég óttaðist, að áform um sparnað um einn milljarð á þessu ári voru fullkomlega óraunhæf og munu að miklu leyti færast yfir á neytendur. Það sýnist mér vera niðurstaðan af þeim svörum sem hæstv. ráðherra hefur gefið hér. Hæstv. ráðherra sagðist vonast til að þessi áform næðust. Hvað ef þau nást ekki, herra forseti?

Ég tek undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að það hefur vissulega alvarleg áhrif á hagkerfið ef fjárlögin standast ekki og þess vegna er mikilvægt að forsendur fjárlaga séu raunhæfar. Hæstv. fjmrh. er hér viðstaddur að minni beiðni en ég fór fram á viðveru hans hér einmitt til að undirstrika alvarleika þessa máls gagnvart forsendum fjárlaga.

Var það virkilega svo þegar tillögur voru lagðar fyrir hv. fjárln. á haustdögum um þennan sparnað að menn vissu ekki að það tæki a.m.k. upp undir ár að koma þessum breytingum í framkvæmd? Ég undrast það mjög að hæstv. heilbrrh. hafi ekki áttað sig á þessum fleti málsins einfaldlega vegna fenginnar reynslu af kerfisbreytingum í heilbrigðiskerfinu. Það væri algjör nýlunda ef hægt væri að gera slíkar grundvallarbreytingar á hinu flókna almannatryggingakerfi að það taki minna en ár og jafnvel fleiri ár að koma slíku í framkvæmd. Ég undrast mjög að menn hafi ekki séð það fyrir á haustdögum þegar þessar tillögur voru kynntar fjárln. er menn gerðust svo bjartsýnir að halda að breytingarnar gætu tekið gildi 1. janúar eða í síðasta lagi 1. mars.

Fyrst og fremst, herra forseti, vekja þessar umræður mann til umhugsunar um vinnubrögð við fjárlagagerð. Ég ítreka enn og aftur að nauðsynlegt er að þess sé gætt að forsendur fjárlaga séu raunhæfar þannig að líklegt sé að þær standist.