Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:33:59 (5750)

2000-03-23 15:33:59# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, EKG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni við síðustu umræðu vil ég aðeins vekja athygli á því að dreift var hér á Alþingi rétt áðan fyrirspurn frá mér. Það var að vísu ekki um þetta mál og alveg óskylt þessu öllu saman, en ég held að það sé rétt að maður noti tækifærið og kynni þetta þegar tilefni gefst til þess héðan úr ræðustól Alþingis að þessu gefna tilefni.

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykn., formaður þingflokks Samfylkingarinnar, kaus í máli sínu að vera með dálitla ólund í garð Sjálfstfl. og einhverjir kynnu að halda að það væri tilefni til mikillar umræðu. Mér finnst það sannast sagna ekki. Mér finnst það bara ágætlega við hæfi að hv. þm. tali með þessum hætti, fulltrúi stjórnmálaflokks sem hefur ekki mikið rykti meðal þjóðarinnar og mér finnst mjög við hæfi að hv. þm. tali á þennan hátt í umræðunni sem var auðvitað ekkert tilefni til, en er að öðru leyti kannski lýsandi fyrir eitthvað annað en það sem hv. þm. var að ræða um.

En varðandi það efni sem hér liggur fyrir, frv. til laga um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þá er það alveg rétt sem fram hefur komið að um er að ræða býsna þýðingarmikið mál. Flugstöðin er mjög mikilvægur vinnustaður fjölda fólks en ekki síður hliðið okkar að samskiptum við útlendinga sem hingað koma. Um flugstöðina fara um milljón farþegar á ári eða þar um bil, ef ég man rétt, sem segir okkur að hér er um að ræða bæði efnahagslega stærð sem skiptir miklu máli fyrir þjóðfélagið og ekki síður hitt að hér er um að ræða fyrirtæki sem hefur heilmikið að segja um stöðu þjóðarbús okkar. Ef vel tekst til um uppbyggingu og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þá vegnar okkur betur vegna þess að flugstöðin er svo snar þáttur í framtíðarskipan ferðaþjónustunnar sem er að verða stöðugt mikilvægari í efnahagsbúskap okkar.

Þegar við skoðum flugstöðvar og veltum fyrir okkur þeirri þróun sem hefur orðið í þeim málum á síðustu árum, þá sjáum við að flugstöðvar almennt eru að breytast gríðarlega mikið. Þær voru tiltölulega einföld apparöt þar sem flugvélar voru afgreiddar, farþegar og vörur en flugstöðvar eru núna að verða miklu frekar nokkurs konar viðskiptaeining þar sem fara fram fjölbreytileg viðskipti, ekki bara afgreiðsla á flugvélum og að koma áhöfnum og farþegum frá einu landi til annars heldur hitt að þær eru að verða miðstöð margvíslegra viðskipta og verslunar alveg sérstaklega. Í því ljósi að hér búa um 280 þúsund manns eða svo en um flugstöðina fara um milljón farþegar, þá sjáum við í hendi okkar að í flugstöðinni leynast gríðarlega mikil viðskiptatækifæri og möguleikar á að eiga viðskipti og efla atvinnu- og viðskiptastarfsemi.

Þess vegna þarf í rauninni ekki að undra þegar við skoðum málin í því ljósi að eðlilegt sé að skipuleggja rekstur flugstöðvarinnar á þann hátt að þetta viðskiptaumhverfi sé sem heppilegast. Það er einfaldlega það sem verið er að gera með þeirri formbreytingu sem nú er verið að leggja til. Það er verið að viðurkenna að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er ekki bara hefðbundinn vettvangur til að afgreiða flugvélar heldur er þetta líka vettvangur viðskipta. Þess vegna er skynsamlegast að hafa það rekstrarform á flugstöðinni sem líkist mest því sem gerist og gengur í viðskiptum almennt og það er auðvitað ekki tilviljun að hér á landi eins og annars staðar hefur hlutafélagsformið verið valið. Það er nefnilega alveg rétt sem sagt er á kjarnyrtan hátt um hlutafélag í athugasemdum við lagafrv., með leyfi virðulegs forseta:

,,Hlutafélag á þess kost í ríkari mæli en ríkisstofnun að laga sig að breyttum aðstæðum enda býður rekstrarformið upp á meiri sveigjanleika en við verður komið í hefðbundnum stofnanarekstri.``

Þetta höfum við stundum rætt á hv. Alþingi og ég held að við þurfum ekki í rauninni að þrátta mjög mikið um þetta vegna þess að reynslan sýnir einfaldlega að þegar menn eru að taka ákvarðanir um að setja upp rekstrarform í kringum rekstur sinn, þá er hlutafélagið að jafnaði valið. Ég held þess vegna að mjög eðlilegt sé að ríkisvaldið breyti stofnunum í þessa veru vegna þess að reynslan úr viðskiptalífinu sýnir að hlutafélagsformið er einfaldlega heppilegasta formið.

Sem betur fer hefur mjög margt breyst til batnaðar við rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á síðustu árum. Ég vil nefna þá breytingu sem hefur verið gerð og var gerð á sínum tíma þegar tekin var um það ákvörðun að auka útboð á verslunarrekstri og verslunarþjónustu í flugstöðinni. Það spáðu mjög margir illa fyrir því. Ég man eftir að úr þessum ræðustóli var m.a. varað við því að þetta gæti haft í för með sér fækkun starfa á flugvellinum. Við vitum að hið gagnstæða hefur gerst. Þetta hefur haft í för með sér að þeir sem eiga þarna viðskipti leggja sig fram um að auka tekjur flugstöðvarinnar og þess vegna hafa þeir lagt sig fram um að nýta sér bæði það jákvæða umhverfi sem þarna hefur ríkt með vaxandi fjölda ferðamanna og einnig hitt að gera viðskiptin sem mest aðlaðandi. Kaupmenn eru auðvitað sérfræðingar á sínu sviði og þeir hafa betra lag á því en nokkrir aðrir skyldi maður ætla að reyna að auka umsvif á viðskiptasviðinu á þessu svæði.

Við urðum þess vegna vitni að því að slíkar breytingar urðu fyrst og fremst til þess að auka umsvif og auka heildartekjur af verslun á svæðinu og enn fremur að skapa fleiri störf sem auðvitað er fagnaðarefni í sjálfu sér. Þess vegna vil ég taka mjög undir það sem hv. 2. þm. Vestf. sagði í fyrstu ræðu sinni þegar hann var að tala fyrir því eðlilega fyrirkomulagi að auka útboð og auka viðskiptatækifærin á sviði flugstöðvarinnar. Ég held að það hafi verið alveg hárrétt ábending að skynsamlegast er í þessum efnum að verslunarreksturinn sé almennt í höndum þeirra sem með þessi mál fara. Og það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt og á því hefur verið vakin athygli að Fríhöfnin er stærsta snyrtivöruverslun á Íslandi og maður getur vel ímyndað að ýmislegt annað henti betur verksviði utanrrn. en að vera yfirmenn snyrtivöruverslana þó að ég sé ekki að gera lítið úr hæfileikum þess fólks sem þar starfar. Ég get bara vel ímyndað mér að aðrir hafi við skulum segja meiri áhuga á starfsemi af því tagi en fólk sem t.d. fer að vinna í diplómatíunni án þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr því mikilvæga starfi sem þar er unnið. (ÖJ: Eru það diplómatar sem afgreiða þarna?) Nei, það eru ekki diplómatar, en það er mjög diplómatískt og gott fólk sem vinnur þar, það er alveg rétt hv. þm. En ég er einfaldlega að segja að það er kannski heppilegra fyrir þetta góða fólk að lúta stjórnanda sem hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti --- ég hélt satt að segja að deilurnar um rekstrarform verslana væru deilur sem heyrðu fortíðinni til. Ég hélt að menn deildu kannski frekar um hvernig eigi að reka símafélög eða banka. Ég hélt að rekstrarform búða væri kannski ekki, hvað eigum við að segja, mikilvægasta ádeiluefnið í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir, en lengi má manninn reyna eins og við vitum.

Aðalhagsmunir ríkisins í þessum efnum eru náttúrlega fyrst og fremst að afla tekna, ekki út af fyrir sig að sjá um atvinnurekstur, heldur miklu frekar að afla tekna og reyna að gera það með þeim hætti sem skynsamlegast er talið hverju sinni.

Virðulegi forseti. Ég skil vel það sem hér hefur verið sagt og tek undir það að þegar við erum að fjalla um þessi mál, breytingar á rekstrarformi, þá er mjög mikilvægt að það sé gert af fullri virðingu við það starfsfólk sem vinnur í þeim fyrirtækjum. Ég fullyrði að það hefur jafnan verið haft að leiðarljósi þegar ríkisvaldið á undanförnum árum hefur verið að breyta rekstrarformi, eins og t.d. í Pósti og síma á sínum tíma, bönkunum og víðar. Menn hafa reynt að leggja sig virkilega fram um að það sé gert á þann hátt að sem minnst röskun verði fyrir starfsmenn. Við vitum að bara tilhugsunin og vitneskjan um það eitt að verið sé að breyta rekstrarformum kallar kannski á óróa. Ég held hins vegar að ekkert tilefni sé til þess í þessu tilviki hér. Hlutafélagaformið hentar eins og ég sagði áðan afar vel fyrir viðskiptaumhverfið og ætti þess vegna að öllu jöfnu frekar að leiða til þess að umsvifin kynnu að aukast, eins og við sjáum að hefur verið að gerast. Hæstv. utanrrh. vakti athygli á því að talið væri að starfsfólki mundi fjölga verulega, ég hygg um 290--400 manns á næstu árum í þessum rekstri.

Ég vek líka athygli á því, virðulegi forseti, að í 11. gr. frv. er kveðið á um það hvernig með skuli fara þegar þessi formbreyting tekur gildi, eða eins og þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Við niðurlagningu stofnunarinnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sbr. 13. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, eftir því sem við á.``

Þessi grein eru mjög skýr og ekkert tilefni til að ætla, nema síður sé, að ekki verði gætt að fullu og öllu réttinda starfsmanna eins og lög kveða á um. Hæstv. utanrrh. kynnti þessi mál fyrir starfsfólki strax og unnt var, sem var líka til mikillar fyrirmyndar. Menn gátu því haft möguleika á að ræða við hæstv. ráðherra um þessi mál að öllu leyti.

[15:45]

Það hefur líka verið vakin athygli á því að í umsögn fjmrn. er sagt að þessi breyting muni hafa það í för með sér að nettótekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu lækki um 140 millj. kr. á ári á tímabilinu en tæplega 200 millj. kr. á fyrsta árinu. Í því sambandi vil ég benda á að þetta þýðir að fyrirtækið, áður stofnunin, Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður sem þessu nemur betur sett. Það verður væntanlega betur sett. Úr því að þessir peningar fara ekki til ríkissjóðs heldur verða eftir í fyrirtækinu þá er unnt að styrkja hinn fjárhagslega grundvöll fyrirtækisins.

Eitt af því sem menn hafa gagnrýnt, m.a. sá sem hér stendur, er að ekki hafi verið tekið á því á sínum tíma að tryggja að hagnaðurinn af rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og þar með talið Fríhafnarinnar gengi til að greiða niður þær skuldir sem urðu til við fjárfestinguna í hinni nýju og glæsilegu byggingu. Þess vegna ætti það út af fyrir sig að vera fagnaðarefni að sjá að þessi formbreyting verður fremur til að styrkja þær fjárhagslegu stoðir sem fyrirtækið stendur á, fyrir utan það sem við sjáum af þessu, að gert er ráð fyrir því að þetta hlutafélag standi undir skuldbindingum flugstöðvarinnar í dag.

Fyrr í þessari umræðu var nokkuð rætt um hvernig flugstöðin hafi árum saman safnað skuldum og að ekki hafi verið gengið í að greiða niður þær stofnframkvæmdir sem á sínum tíma var efnt til, fyrir einum og hálfum áratug eða þar um bil þegar hina nýja og glæsilegu flugstöð var reist. Við vitum að það var tímabær fjárfesting að hverfa úr þessum gömlu kofum, sem Ameríkanarnir áttu ef ég man rétt, og reisa okkar eigin flugstöð og greina um leið milli hins borgaralega hlutverks flugvallarins og hins hermálalega. Um þetta voru m.a. við talsmenn Vestrænnar samvinnu og kommarnir alltaf sammála, að það væri mikilvægt í sjálfu sér. Á þeim tíma var hins vegar ekki gengið frá því hvernig þessi stofnkostnaður yrði greiddur niður. Nú hefur það verið gert.

Það er auðvitað alrangt sem hér hefur verið sagt, að þessi mikli stofnkostnaður það sé dæmi um óráðsíu. Menn getur auðvitað greint á um það í einstökum atriðum hvernig staðið var nákvæmlega að framkvæmdinni á sínum tíma en aðalatriðið var að árum saman var látið undir höfuð leggjast að ganga þannig frá málum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar fengi að njóta einhvers hluta tekna sinna til þess að greiða niður skuldir vegna mikils og eðlilegs stofnkostnaðar.

Það var aðfinnsluvert, að ganga ekki frá þeirri hlið málsins. Þess vegna ber mjög að fagna þeirri ákvörðun sem tekin var á síðasta kjörtímabili og skaut betri fjárhagslegum stoðum undir þetta fyrirtæki. Þar með var tryggt að það gæti greitt niður þessar skuldir. Eins og fram kemur í þessum fskj., bæði stofn-efnahagsreikningi og efnahagsreikningum fyrirtækisins, erum við að greiða niður þessar skuldir. Það er alveg augljóst mál.

Áðan var vakin athygli á þeirri stöðu sem þessi flugstöð hefur. Hún er auðvitað eina alvöru alþjóðlega flugstöðin okkar þó að aðrar flugstöðvar, eins og á Akureyri og Egilsstöðum, séu í stakk búnar til að taka við millilandaflugi auk hennar en í miklu minni mæli. Þetta er auðvitað aðalflugstöð okkar. En það er ekki þar með sagt að þessi flugstöð hafi einokunarstöðu. Hún hefur að vísu einokunarstöðu á landinu að vissu leyti en engu að síður skiptir gríðarlega miklu máli hvernig menn standa sig í þeim rekstri, hvort og hvernig mönnum tekst að auka tekjur flugstöðvarinnar. Ef vel tekst til um rekstur flugstöðvarinnar, takist t.d. vel til með tengiflugið sem er mjög þýðingarmikill þáttur í þessum rekstri og ef vel tekst til um að draga úr tíma við að afgreiða flugvélar þá verður eftirsóknarverðara að nota Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll.

Þegar við fjölluðum um þær breytingar sem voru á sínum tíma gerðar á rekstrarformi flugstöðvarinnar var þetta mjög haft í huga, að reyna að tryggja að eftirsóknarvert væri að nota Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir þetta tengiflug. Sem betur fer hefur tekist að standa vel að þessum málum en þar með er ekki sagt að menn eigi bara að una við orðinn hlut og huga ekki að breytingum. Öðru nær, við eigum einmitt að líta þannig á að vegna þess að við höfum skapað þessari flugstöð gott orðspor, gott rykti, þá eigum við að gera allt til að það batni enn svo menn telji það afar áhugaverðan kost að koma hingað og njóta aðstöðunnar og þjónustunnar.

Það er einmitt það sem þetta frv., virðulegi forseti, gengur út á, að bæta samkeppnisstöðu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þannig verður hún ákjósanlegur viðkomustaður fyrir alþjóðlegt flug sem hingað kemur. Hugsunin í þessu frv. er líka að flugstöðin verði góð rekstrareining sem skapi ríkissjóði tekjur, standi undir eigin fjárfestingu og skapi eftirsóknarverða og öfluga atvinnustarfsemi fyrir þá sem þar starfa.

Virðulegi forseti. Ég held að þegar við skoðum þetta allt af sanngirni þá hljótum við a.m.k. að vera sammála um þessi markmið, þó að menn greini sjálfsagt á um hvaða leiðir séu skynsamlegastar í þessum efnum. Sjálfur er ég alveg sannfærður um að hlutafélagaformið er betra í þeim efnum en stofnanaformið af því þetta er viðskiptaeining. Flugstöðin er viðskiptaeining. Hún er ekki bara tæki til að afgreiða flugvélar, eins og ég sagði áðan, heldur viðskiptavettvangur sem við þurfum að búa þannig úr garði að þar megi nýta öll þau tækifæri sem bjóðast bæði skjótt og skilvirkt.

Ég mundi svo, rétt í lokin á umræðunni um Schengen, benda á að ekki veiti nú af öllum tækifærum til að draga sem mest af peningum í þetta fyrirtæki til að standa undir þeim stofnkostnaði sem þar stendur fyrir dyrum. Læt ég svo lokið umræðu minni um Schengen-hluta þessa máls.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að ég sit í utanrmn. Alþingis sem fulltrúi flokks míns. Þess vegna var mjög ósanngjarnt þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hóf umræðu sína á að gefa til kynna að sjálfstæðismenn reyndu að koma sér undan erfiðum málum. Ég held þvert á móti að við höfum nú sýnt það í allri umræðunni í vetur, ekki síst um þetta mál, að við erum einörð á bak við þessa ákvörðun og teljum þetta reyndar ekki óþægilegt mál nema síður sé. Þetta frv. er fagnaðarefni og mun verða til að styrkja stoðir þess reksturs sem þarna fer fram.