Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 16:02:14 (5755)

2000-03-23 16:02:14# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég vil í upphafi segja að ég tel í sjálfu sér ekki nauðsynlegt að ríkið standi í atvinnurekstri sem eins vel væri komið, hagsmunum eins vel borgið og réttur borgaranna tryggður, í höndum félagasamtaka eða einkaaðila. Hins vegar hlýtur rekstur þjónustu sem lýtur að öryggi beint eða óbeint að vera á ábyrgð ríkisins, annaðhvort formlega eða þá að tryggt sé með lögum að hagsmunum þjóðfélagsþegna sé örugglega borgið, þar sé engin óvissa.

Mér finnst heldur ekki nauðsyn í sjálfu sér að selja fyrirtæki í eigu ríkisins bara af því að það gefur arð eða af því að möguleiki sé á því að það gefi arð. Það eru í sjálfu sér engin rök fyrir því að selja fyrirtæki í eigu ríkisins eða hlutafélagavæða það. Það verða að vera þaulkannaðar forsendur fyrir því hvaða rekstrarform er ákveðið og hver fer með ábyrgð á verkefninu. Málið snýst um það. Sé lagaleg umgjörð ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana þannig að þær geti ekki staðið sig eðlilega í samkeppnisumhverfi og starfsmenn þeirrar stofnunar fái ekki tækifæri til að sýna hug sinn og dug þá er eitthvað að umgjörð ríkisstofnananna, þá er eitthvað að ríkisvaldinu sjálfu. Það á ekki að flýja í að hlutafélaga- eða einkavæða starfsemina þess vegna. Mér finnst ástæða, herra forseti, til að þetta mál verði einmitt skoðað mjög rækilega, þ.e. að rekstrarumhverfi ríkisstofnana verði eðlilegt og þær samkeppnishæfar þannig að við þurfum ekki að hlusta á raddir í hv. Alþingi um að umgjörð ríkisstofnana hamli starfsmönnum og stofnunum sem beitt gætu metnaði sínum landi og þjóð til hagsbóta og arðs þegar þarf. Mér finnst það ekki rök í þessari umræðu, herra forseti. Það á að snúa sér að rótum meinsins ef menn geta ekki fullyrt að svo sé.

Ég vil líka benda á, herra forseti, að lög um hlutafélög snúast reyndar um annars konar umgjörð en rekstur ríkisins á hlutafélögum. Hvernig er aðalfundur og hvaða málefnaleg umræða fer fram á aðalfundi hlutafélags þar sem einn hluthafi fer með allt hlutaféð? Hvaða aðhald veitir slíkur aðalfundur eða slíkt hlutafélag þeim sem fara með stjórn og rekstur fyrirtækisins? Ekki nokkurt. Þetta rekstrarform á vegum ríkisins er ekki rekstrarform, finnst mér, í skilningi laga um hlutafélög. Lögin um hlutafélög gilda þar sem margir eiga aðild að, með hlutafélagafundum þar sem hluthafar koma sér saman, þeir koma allir með sín innlegg og gera sínar kröfur til hlutafélagsins. Stjórn í hlutafélagi sem aðeins er skipuð einum hluthafa, einum sem ræður og skipar, er í sjálfu sér engin trygging fyrir fagmennsku í störfum umfram góða starfsmenn ríkisins. Að segja það er ósanngjarnt í garð embættismanna, starfsmanna ríkisins sem ráðnir eru og trúað fyrir verkum sínum, að þeir séu í sjálfu sér, vegna þess að þeir eru starfsmenn ríkisins, síður færir um að ráða þessum málum. Ég frábið mér svona málflutning fyrir hönd góðra starfsmanna ríkisins og þjóðfélagsþegna. Þetta eru engin rök fyrir því að þörf sé á að hlutafélagavæða.

Það eru nokkur atriði í þessu frv. sem ég hefði viljað spyrja um. Hlutafélagavæðing á flugstöðinni og hlutafélagavæðing á flughöfninni, þessi orðanotkun rennur svolítið saman fyrir mér. Fyrir mér er þetta flugvöllur, fyrir mér er þetta flughöfn. Síðan er þjónusta og þjónusturými í þeirri flughöfn þar sem megintilgangurinn er að taka á móti farþegum og þjóna hinum ýmsu þörfum þeirra. Önnur þjónusta og verslun geta svo sem tengst þessu en það er annað mál. Mér finnst umræðan reyndar bera keim af því að menn eru að ræða um hvernig nálgast eigi hagnaðinn af sölu brennivíns, ilmvatna, púðurs og skótaus og hvaða þekkingu menn hafi á þeim sviðum. Auðvitað er mikilvægt að á hverjum stað, hvort heldur verið er að lesta eða ferma vélar, keyra töskum út á völl eða selja skó, sé valinn maður í hverju rúmi. Ég vænti þess að svo sé. Það er bara óþarfi að taka það fram og ætti að gilda einu hvort hann er starfsmaður hlutafélags eða ríkisstofnunar í því tilliti og rangt að greina þar á milli.

Ég vil spyrja varðandi þetta: Er það rétt skilið að nú eigi að aðskilja rekstur flughafnarinnar sem slíkrar og flugvallarins sjálfs? Sé svo hvernig sjá menn þá það samspil? Fyrir mér er bæði flugvöllur og flughöfn samgöngumannvirki í heild sinni. Þetta er þjónustumannvirki. Sú starfsemi sem þar fer fram er öryggis- og þjónustustarfsemi og hvar er sú höfn stærri og mikilvægari en einmitt á Keflavíkurflugvelli? Hvernig sjá menn þennan aðskilnað fyrir sér ef þetta verður raunin? Hvernig sjá menn að til framtíðar verði gætt þess öryggis sem slíkt samgöngu- og þjónustumannvirki veitir? Hæstv. utanrrh. kom einmitt inn á það í framsögu sinni og sagði eitthvað í þá veruna að þetta væri ekki aðeins mikilvægasta höfn landsins og samgöngumannvirki heldur líka þáttur í varnar- og öryggisstarfi. Viljum við tefla í tvísýnu með forsjá slíks mannvirkis? Mér finnst að svara verði þessari spurningu og gera úttekt til að leiða þetta í ljós. Það dugir ekki að segja: Við sjáum bara til og gerum svo samninga við viðkomandi fyrirtæki um að fyllsta öryggis verði gætt.

Ég hefði viljað sjá hvað það þýðir í reynd að aðskilja rekstur flugvallarins og flughafnarinnar. Hvaða auknar skuldbindingar færast þá yfir á ríkið ef sú verður raunin sem mér skilst af þessu frv., að ætlunin sé að hafa það aðskilið? Hvað verður þá um skyldur ríkisins varðandi flugvöllinn, kostnað, fjárhagsleg ábyrgð, snjómokstur og hvað annað sem fallið gæti undir rekstrarkostnað?

Ég hefði líka viljað heyra hvernig menn sjá fyrir sér þær stórkostlegu framkvæmdir sem fyrirsjáanlegt er að ráðast þurfi í við flugstöðina eða flughöfnina --- ég renn þarna aðeins á milli hugtaka --- m.a. vegna aðildar að Schengen-samstarfinu ef af verður. Ég vona náttúrlega að svo verði ekki. Þær fela í sér verulegar fjárfestingar og ábyrgðir. En hvort sem við verðum aðilar að Schengen eða ekki þarf þarna að ráðast í verulegar framkvæmdir, auka þjónustu og hefja framkvæmdir og rekstur sem, eins og fram kom í umræðunni um Schengen-aðildina, enginn getur nákvæmlega sagt til um hver verður. Enginn veit heldur hvað það kostar eða hvernig muni takast við að veita alla þá þjónustu sem þörf verður á.

Þarna eru ýmsir óvissuþættir sem við þurfum að takast á við á næstu árum. Í þessum útreikningum gefa menn sér samt að umferðin muni aukast, tvöfaldast á næsta áratug, ekki aðeins með þörf fyrir auknu rými og auknum kostnaði heldur þá væntanlega líka með auknum tekjum, lendingargjöldum o.s.frv. Þannig finnst mér kostnaðarlega hliðin og kostnaðarleg ábyrgð varðandi lagafrv. sem hér er lagt fram í afar mikilli óvissu sem og sú hagsmunagæsla sem við hljótum að bera fyrir brjósti varðandi uppbyggingu og þjónustu í flugstöðinni.

[16:15]

Þá vil ég, herra forseti, leyfa mér að spyrja hvað átt er við í 8. gr. frv. til laga um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar stendur:

,,Heimili og varnarþing félagsins skulu vera á Keflavíkurflugvelli,`` --- og takið eftir --- ,,en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum.``

Ég hélt, herra forseti, að þetta frv. snerist um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli, klippt og skorið. Er meiningin að reka einhverja fríhöfn á Þingvöllum á kristnihátíðinni eða hvað er verið að opna þarna fyrir? Eða er ætlunin að þetta hlutafélag fari að reka einhverja flugvelli úti á landi? Ég hef enga fyrirframskoðun á því í sjálfu sér annað en að vera tortrygginn gagnvart því. Þjónusta úti á landi við aðra flugvelli --- hvað vakir fyrir mönnum með þessu? Ekki er slík setning sett inn bara út í bláinn. Ég hef enga trú á því og vænti þess að hægt sé að fá svör við þessu.

Málið verður hins vegar enn þá stærra ef gert er ráð fyrir að flugstöðin og þetta hlutafélag fari líka að ráða þjónustu á verkefnum á flugvöllum úti á landi og stýra þeim. Nógu erfitt er nú að fá starfsemi í flugi til annarra flugvalla, alþjóðlegt flug til annarra flugvalla en flugvallarins á Keflavíkurflugvelli, meira að segja er beitt tæknilegum hindrunum, eins og það að ekki skuli vera hægt að afgreiða bensín á flugvélar á ákveðnum flugvöllum má hreinlega skoðast sem samkeppnis- og tæknihindrun.

En við hverju má maður búast ef sameiginlegt fyrirtæki fer að reka þessa flugvelli? Þess vegna spyr ég, herra forseti, hvað er átt við þarna?

Ég vil líka, herra forseti, fá að spyrja um hvað átt er við í 15. gr. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom inn á það sama hér fyrr í dag:

,,Stjórn félagsins er heimilt að setja þjónustugjaldskrá fyrir félagið þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða ...`` --- Eru það einhver önnur sjónarmið en við gætum sett í sjálfu sér við núverandi rekstrarform? Er nauðsynlegt að setja það með þeim arðsemissjónarmiðum að arðurinn rynni til almennings í landinu, til ríkisins, til starfseminnar sem þarna er? --- ,,og jafnframt tekið tillit til nýjunga sem geta haft áhrif á söluverð þjónustu félagsins.``

Er hér verið að opna fyrir sjálftökurétt í gjaldtöku á ferðafólk og þá sem fara um völlinn? Ekki eru það aðrir sem eiga að greiða þessi þjónustugjöld væntanlega nema þá þeir sem eru að flytja vörur eða þjónustu. Erum við að afsala okkur stjórnun á þjónustu og gjaldtöku hennar og þá líka á samkeppnisstöðu okkar í alþjóðlegu samhengi í hendur þessa hlutafélags, ef af verður?

Ég vil líka, herra forseti, vekja athygli á að mér finnst umsögn frá fjmrn. sem fylgir frv. nokkuð fátækleg. Ég hefði viljað sjá þar samanburð á þessari hlutafélagavæðingu og á fjárhagslegum hagsmunum ríkisins, tekjum, gjöldum og á fjárhagslegum ábyrgðum við núverandi form, tiltölulega lítið breytt eða aðlagað. Það er mjög eðlilegt að í svona stóru máli fylgi ítarleg greinargerð um fjárhagsleg fjármunaleg áhrif á ríkissjóð bæði til skemmri og lengri tíma. En það er ekki, herra forseti, heldur er orðalag eins og: ,,Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi á húsaleigu fyrir landamæravörslu, tollafgreiðslu og öryggiseftirlit, en í athugun er að fella þá leigu niður.``

Hvers konar fjárhagsleg umsögn er þetta? Það væri fróðlegt að vita --- og ég sakna þess að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér og gera grein fyrir afstöðu sinni sem fjmrh. og vörslumaður ríkissjóðs --- hvernig hann lítur á þetta mál. Ég er þó engan veginn að gera því skóna að ríkisstjórnin sé ekki einhuga í málinu. En við sem fjöllum um fjárhags- og fjármunalega ábyrgð ríkissjóðs til lengri og skemmri tíma hefðum gjarnan viljað heyra sjónarmið hans á einu stærsta fjárhagslega máli sem borið er fram á Alþingi nú. Og það hefði verið fróðlegt að heyra nánari skýringar hans á því hvað hér er á ferðinni og snertir einmitt fjármál og ríkissjóð.

Í umræðu um Schengen var gert ráð fyrir því að lendingargjöld mundu tvöfaldast eða jafnvel meira og ég dreg enga dul á að ég mundi fagna aukinni umferð um flugvöllinn. En hvað þýðir það?

Herra forseti. Ég styð mjög eindregið að öll sóknarfæri séu nýtt á flugvellinum á Keflavíkurflugvelli. Ég vil að horft sé einmitt á þessi sóknarfæri og staðan metin út frá þeim, en ekki eins og mér virðist í þessu lagafrv. að hlutafélagavæða bara sisona. Herra forseti. Við eigum að horfa fram á veginn.