Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:27:11 (5769)

2000-03-23 17:27:11# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill grundvallarágreiningur milli mín og hv. þm. Ögmundar Jónassonar um hvernig eigi að reka samfélagið. Ég og flokkur minn erum mjög fyrir félagsleg gildi og félagslega hjálp. Við teljum að við náum þeim markmiðum best með því að nýta markaðslögmálin í atvinnurekstri og byggja atvinnulífið upp á þeim grundvelli. Þannig náum við mestum hag fyrir þjóðfélagið og getum betur hjálpað þeim sem minna mega sín.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vill grauta þessu öllu saman. Hann vill að ríkið sé í öllum hlutum. Það má vel vera að hv. þm. vilji líka að ríkið reki matvörubúðir. Ég átta mig ekkert á hugmyndafræði hans. En það vill bara svo til að þessi hugmyndafræði er aflögð, einnig af vinstri flokkum víðast í heiminum. Þessar hugmyndir liðu meira og minna undir lok með falli Sovétríkjanna.

Mér heyrist hins vegar hv. þm. enn á því að ríkið eigi að vera í þessum hlutum. Ég get ekkert að þessu gert, hv. þm., en Framsfl. stendur fyrir sín félagslegu gildi og getur sinnt þeim best með því að nýta markaðslögmálin í atvinnurekstri. Þetta hefur alls staðar gefist best í hinum vestræna heimi en hv. þm. virðist ekki enn farinn að átta sig á þessu.