Vaxtabyrði heimilanna

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:18:23 (5794)

2000-04-03 15:18:23# 125. lþ. 87.1 fundur 415#B vaxtabyrði heimilanna# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er vissulega áhyggjuefni hvernig skuldir heimilanna hækka og hvernig þær skrúfast upp án þess að skuldsett fólk hafi neina stjórn á því. En þetta kemur út af þeim tengingum sem eru við vísitölu.

Bensínverðið hefur haft feiknamikil áhrif á vísitöluna, mig minnir að það sé ábyrgt fyrir um 20% af þeirri hækkun sem orðið hefur undanfarið. Húsnæðiskostnað á Reykjavíkursvæðinu --- af einhverjum undarlegum ástæðum er einungis húsnæðiskostnaður hér á þessu svæði inni í vísitölunni --- má skrifa fyrir þriðjungi hækkunar vísitölunnar. Það er ekki ásættanlegt að binda húsnæðiskostnaðinn einungis við Reykjavíkursvæðið.

Nú er hv. þm. eins vel kunnugt og mér um af hverju húsnæðiskostnaðurinn spennist svo upp hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er vegna þeirra þjóðflutninga sem eru utan af landi yfir á þetta svæði, þessi mikla spenna myndast af því. Gjarnan vildi ég ná að gera mitt til þess að snúa þeirri þróun við.

En það rétt að hafa í huga, þegar talað er um skuldir heimilanna, að skuldir heimilanna eru svipuð stærð og innstæður heimilanna í lífeyrissjóðum. Það eru að vísu ekki sömu aðilar sem eiga þær í öllum tilfellum en skuldir heimilanna og innstæður í lífeyrissjóðunum haldast nokkuð í hendur.