Vaxtabyrði heimilanna

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:20:37 (5795)

2000-04-03 15:20:37# 125. lþ. 87.1 fundur 415#B vaxtabyrði heimilanna# (óundirbúin fsp.), PBj
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Pétur Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gleðjast yfir því að hæstv. félmrh. hefur áhyggjur af þessari þróun. Ég held að margir hafi áhyggjur af henni. En mér fannst í raun lítið um svör við fyrirspurnunum. Ég ítreka því spurningar mínar.

En hvað tenginguna við vísitölu snertir þá er margt fleira sem kemur til en tenging við vísitölu. Þessar vaxtahækkanir eru ekki eingöngu vegna tengingar við vísitölu heldur og vegna ákvörðunar Seðlabanka sem fylgir í kjölfar yfirlýsinga stjórnvalda um að slá þurfi á þensluna. Þá liggur í loftinu að heimilin, þessi skuldugu heimili, eigi að taka þátt í þessum leik fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til að slá á þensluna.

Varðandi hækkanir á höfuðborgarsvæðinu þá valda þær því að fólk sem á húsnæði úti á landi og þarf að greiða af þeim fasteignagjöld greiðir stöðugt hærri gjöld af þeim á sama tíma og söluverð húsanna lækkar. Þetta er dálítið öfugsnúið. Mér finnst það dálítið klént ef ríkisstjórnin notar það sem afsökun að fólkið flytjist á höfuðborgarsvæðið, eins og það sé eitthvert náttúrulögmál. Auðvitað á stefna ríkisstjórnarinnar stóran hlut í því.