Vegurinn fyrir Búlandshöfða

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:36:44 (5810)

2000-04-03 15:36:44# 125. lþ. 87.1 fundur 418#B vegurinn fyrir Búlandshöfða# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nýlega var opnaður nýr vegur fyrir Búlandshöfða. Það gekk undrahratt að byggja þennan veg og hann var tekinn í notkun löngu áður en menn höfðu reiknað með að hann yrði tilbúinn. Verktakinn skilaði honum löngu fyrr. Hann var mikil samgöngubót, þessi vegur, og íbúarnir voru farnir að tala um meiri samvinnu og jafnvel sameiningu, og ýmsar hugmyndir voru á lofti um hvernig þessar samgöngubætur mundu gagnast fólki á norðanverðu Snæfellsnesi. En svo fór að rigna og vegurinn lagði af stað til sjávar og 30 metra kafli af honum kvaddi og fór. Þetta var auðvitað mikið áfall fyrir fólkið og býsna alvarlegt að svona lagað skuli geta gerst. Eitthvað hlýtur að hafa verið að í undirbúningi þessa verks eða í verkinu sjálfu.

Traust manna á þessum vegi er auðvitað fokið út í veður og vind. Menn hætta kannski að tala um hagræðið sem verður af samgöngubótunum þegar þeir treysta sér ekki að fara um þennan veg ef það rignir. Ég held að það þurfi að skoða þessi mál og ég spyr hæstv. samgrh. hvort hann ætli að láta fara fram rannsókn á því hvað er að í þessu vegstæði og hvort hann ætli að beita sér fyrir því að komið verði upp einhvers konar viðvörunarferli ef veður af slíku tagi sem við fengum um daginn verða, svipað og t.d. aðvörun gagnvart snjóflóðum er komið á framfæri ef veðurfar verður þannig að ástæða er til að gera ráð fyrir því að hætta sé á ferðum.