Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:56:43 (5817)

2000-04-03 15:56:43# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Flestum er í fersku minni æðibunugangur ríkisstjórnarinnar liðið haust þegar allt var lagt undir í umræðunni um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. En hvar standa stjórnvöld nú þremur mánuðum síðar? Á byrjunarreit og með allt niður um sig.

Hæstv. iðnrh. segist hafa lært af reynslunni. Í þetta sinn mun ríkisstjórnin ekki stóla á einhverjar undirtyllur, þær hinar sömu og fyrirrennari hennar í embætti, Finnur Ingólfsson seðlabankastjóri, setti allt sitt traust á. Hornsteinn stóriðju\-áforma ríkisstjórnar Íslands, sjálf Hallormsstaðaryfirlýsingin, er þegar allt kemur til alls marklaust plagg.

Herra forseti. Fjárfestar hafa eðli málsins samkvæmt það eitt að leiðarljósi að ávaxta sitt pund. Það kemur því nokkuð á óvart að hæstv. starfandi iðnrh. skuli kvarta undan skorti á staðfestu af þeirra hálfu. Staðreyndirnar hafa legið á borðinu mánuðum saman. Fjárfestar vilja stórt álver, minnst 240 þúsund tonn. Annað er óhagkvæmt og freistar þeirra ekki. Hæstv. iðn.- og viðskrh. á að vera fullkunnugt um þær staðreyndir.

Stóra spurningin er hins vegar hvort stjórnvöld munu læra sína lexíu og draga réttar ályktanir af Fljótsdalsvirkjunar-,,afferunni``. Hver er t.d. staða væntanlegrar rammaáætlunar um nýtingu vatnsorku og jarðvarma með tilliti til hins nýja virkjunarkosts við Kárahnjúka? Hvaða arðsemiskröfur hyggjast stjórnvöld gera til virkjunarframkvæmdanna?

Herra forseti. Að lokum verður ekki hjá því komist að benda á að í stórmálum sem þessum reynir á fagleg vinnubrögð, dugandi samráð og skýra pólitíska sýn. Á þeim prófum er ríkisstjórnin fallin með eftirminnilegum hætti. Eftir stendur að Framsfl. og Sjálfstfl. hafa engar raunhæfar lausnir að bjóða í byggðamálum. Að auki er þessum flokkum ótamt að taka tillit til málefnalegrar gagnrýni og almannavilja.