Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:02:34 (5820)

2000-04-03 16:02:34# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur gagnrýnt stjórnarflokkana fyrir einnar hugmyndar byggðastefnu. Byggðastefnuhugmynd ríkisstjórnarinnar fyrir Austfirði hefur verið stóriðja. Nú kemur í ljós að 120 þús. tonna álver kemur ekki til með að standa undir sér sem rekstrareining eins og hæstv. fyrrv. iðnrh. hélt þó alltaf fram að það mundi að gera. Ljóst er að svo er ekki og að kúvending hefur átt sér stað.

Þá kemur í ljós, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur engin önnur úrræði. Engin. Það er ekkert ,,plan B`` í gangi. Mig langar til að spyrja hæstv. starfandi iðnrh. í þessu sambandi hvort hann sé ekki tilbúinn að opna augu sín fyrir þeirri gullkistu sem ferðaþjónustan og náttúruvernd geta verið þjóðinni. Væri hann ekki tilbúinn til að skoða þá hugmynd að rammaáætlun ríkisstjórnarinnar reiknaði líka út þann kost að virkja ekki og stofna þjóðgarð á svæðinu?

Mig langar til að fara örfáum orðum um hvað Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sér fyrir sér í þessum málum. Við erum að tala um að ferðaþjónustan skili þjóðarbúinu talsvert meiri tekjum en stóriðjan gerir í dag. Hitt er líka að við megum ekki varpa þessari tvöföldu ímynd út til umheimsins. Annaðhvort er landið okkar ímynd hreinleika og ósnortinnar náttúru eða málsvari stóriðjufyrirtækja sem fá víðerni okkar undir stórvirkjanir til að knýja risastórar málmbræðslur.

Er hæstv. starfandi iðnrh. ekki tilbúinn að skoða atvinnumöguleikana sem felast í þjóðgarði? Þjóðgarðurinn mundi teygja sig frá Skaftafelli yfir allan Vatnajökul og yfir víðernin norðan Vatnajökuls, yfir friðlandið við Mývatn, meðfram Jökulsá á Fjöllum og alla leið til Öxarfjarðar. Væri ekki hugsanlegt að kanna þessa möguleika, reikna út og skoða í samhengi við stóriðjuáformin sem greinilega eru ekki fugl í hendi?