Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:16:31 (5826)

2000-04-03 16:16:31# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hæstv. sitjandi iðnrh., Halldór Ásgrímsson, svaraði fyrirspurnum mínum eitthvað á þá leið að Kárahnjúkavirkjun muni koma fyrir þingið í haust, þ.e. það á að undanskilja Jökulsá á Dal frá rammaáætluninni. Það er alveg ljóst að Kárahnjúkavirkjun er of stór framkvæmd fyrir Landsvirkjun eins og komið hefur fram. Varðandi atvinnu- og byggðamálin benti hæstv. ráðherra á vegáætlun og jarðgangaáætlun en ekkert annað fyrir utan áframhaldandi vinnu við stóriðjuframkvæmdir.

Herra forseti. Framhald stóriðju og virkjanaframkvæmda eru síður en svo auðveld aðgerð, hvort heldur er fyrir stjórnvöld eða framkvæmdaraðila því þar er mörgum spurningum ósvarað: Hvaða tryggingu hefur hæstv. sitjandi iðnrh. fyrir því að mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar verði jákvætt? Mun ríkisstjórnin halda áfram að binda stóriðjuáætlanir við pólitískar ákvarðanir áður en mat á umhverfisáhrifum og arðsemismat er unnið? Telur hæstv. sitjandi iðnrh. að það verði óumdeilt að hleypa Jöklu í Lagarfljót? Hvernig verður mengun frá 360 eða 480 þús. tonna álveri í Reyðarfirði í svo þröngum firði? Og hvað þýðir rekstur svo stórs álvers fyrir fámenn byggðarlög?

Herra forseti. Mörgum spurningum er ósvarað hvað varðar hugmyndir sem fram hafa komið um stækkun fyrsta hluta álvers og virkjana við Kárahnjúka. Herra forseti, mig langar til að vekja athygli þingsins á því hvaða raddir umhverfisverndarsinna meðal stjórnarliða hafa fengið að heyrast í dag. Engin.