Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:18:32 (5827)

2000-04-03 16:18:32# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í umræðunni hefur Fljótsdalsvirkjun verið lengi í undirbúningi og virkjanaleyfi vegna hennar löngu verið afgreitt af Alþingi eins og kunnugt er. Hins vegar er það mál sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. álver á Reyðarfirði í samvinnu við Norsk Hydro og aðra fjárfesta, mál sem hefur einungis verið til umfjöllunar í u.þ.b. tvö ár, og hér er ekki um neitt smámál að ræða. Verið er að tala um fjárfestingu upp á upp undir 200 milljarða kr. og allir hv. þm. hljóta að skilja að slíkt þarf verulegan undirbúning. Það sem mér finnst verst við umræðuna í dag er þetta tal um að hér sé eitthvert leikrit á ferðinni, hér sé blekkingartal og vísvitandi sé verið að draga menn á asnaeyrunum og blekkja fólk. Er það nú sæmandi hv. þm. að tala með þessum hætti? Lagðir hafa verið á milli 3 og 4 milljarðar í Fljótsdalsvirkjun. Var það allt gert í blekkingarskyni? Voru allir þeir sem stóðu að því í mörgum ríkisstjórnum að hugsa um blekkingu? Halda menn að þegar nú stendur til að leggja allt að því einn milljarð í rannsóknir við Kárahnjúkavirkjun sé það gert í blekkingarskyni og það sé líka gert í blekkingarskyni að fá fjárfestana til að eyða 200--400 millj. á næstunni í undirbúning álvers á Reyðarfirði? Telja menn að ríkisstjórnin hafi þau völd að hún geti fengið bæði innlenda og erlenda fjárfesta með sér í slíkan blekkingarleik? Nei, auðvitað ekki. Hér er um mikið alvörumál að ræða og það ber að ræða á málefnalegum grundvelli og það skulum við gera á næstu vikum, við skulum fá niðurstöðu í þetta mál. Hér er um mikið hagsmunamál Austurlands og þjóðarinnar að ræða og ég biðst undan því að menn tali um þetta jafngáleysislega og hér hefur veið gert og stjórnarandstöðunni væri nær að segja eitthvað um eigin hugmyndir. Ekki kom fram eitt orð um það hvað stjórnarandstaðan vildi gera annað en að breyta svæðinu í þjóðgarð og hleypa nægilega mörgum ferðamönnum inn á svæðið.