Ábúðarlög

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:41:20 (5831)

2000-04-03 16:41:20# 125. lþ. 87.4 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Nú ber svo við að fulltrúar Samfylkingarinnar í landbn. eru hvorugur til staðar í dag. Annar er fjarverandi vegna veikindaforfalla og hinn er með fjarvist vegna trúnaðarstarfa á vegum þingsins en þeir hefðu væntanlega farið yfir málið eftir afgreiðslu þess úr nefnd og með tilliti til yfirferðar og afstöðu Samfylkingarinnar.

Ég vil hins vegar láta það koma fram að Samfylkingin styður afgreiðslu málsins. Eins og kom fram í ræðu frsm. fyrsta minni hluta sagði þingmaðurinn að öll nefndin væri sammála um að hverfa frá ríkjandi fyrirkomulagi. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að í gildandi lögum eru engin ákvæði um hvaða sjónarmið úttektarmönnum og yfirmatsnefndum beri að leggja til grundvallar við mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúenda og fleiru er ábótavant sem varðar ríkjandi fyrirkomulag. Þess vegna hefur orðið misræmi í því hvernig eignir og endurbætur fráfarandi ábúenda hafa verið metnar við ábúðarlok og það getur hafa verið mismunandi hvernig þetta mat hefur verið eftir því hvar á landinu menn hafa búið. Því er mikilvægt að leitast verði við að ráða bót á þessu misræmi með því frv. sem hér liggur fyrir og það hefur orðið niðurstaða í því máli. Samfylkingin styður afgreiðslu málsins og stendur að brtt. sem koma fram af hálfu meiri hluta landbn. og fylgir nefndarmönnum sínum í landbn. í málinu.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti.