Fjármálaeftirlit

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 17:02:10 (5835)

2000-04-03 17:02:10# 125. lþ. 87.3 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þetta frv. fékk mjög góða umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. Það er aðeins eitt sem ég var ekkert sérstaklega hamingjusamur með og það eru þessi févíti. Þau geta numið frá 10 þús. kr. og upp í 2 milljónir fyrir einstakt tilfelli. Þar er verið að sekta menn eftir á og ég er á móti því að Fjármálaeftirlitið geti lagt á slíkar sektir. Ég er bara yfirleitt á móti því að aðrir en dómstólar leggi á sektir.

Auk þess hefur Fjármálaeftirlitið möguleika á að setja á dagsektir, þ.e. það getur sagt að ef ákveðin skilyrði eru ekki uppfyllt fyrir ákveðinn tíma þá komi til dagsektir. Það er miklu eðlilegri framkvæmd að viðkomandi fyrirtæki geti brugðist við með því að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið en að það fái eftir á févíti.

Þetta er nú það eina sem ég hafði við frv. að athuga en ég styð það að öllu leyti.