Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 18:29:51 (5843)

2000-04-03 18:29:51# 125. lþ. 88.6 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 125. lþ.

[18:29]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls mín þakka þingflokksformönnum fyrir að hafa greitt fyrir því að þetta mál gæti komið á dagskrá í dag með afbrigðum og sömuleiðis vil ég þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir þann aukafund sem fyrirhugaður er í kvöld vegna þessa máls. Ástæðan fyrir því að málið er tekið fyrir með þessum hætti er sú, eins og málið ber með sér, að það er þess eðlis að það kann að hafa veruleg áhrif úti á markaðnum, hafa áhrif á viðskipti á því sviði sem það fjallar um. Þess vegna er eðlilegt að það fái greiða afgreiðslu í þinginu þó að sjálfsögðu sé ekki hægt að fara fram á að allir þingmenn styðji efni málsins. Ég þakka fyrir þá fyrirgreiðslu sem ég hef fengið í þessu sambandi.

[18:30]

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Í frv. er lögð til breyting á vörugjaldi af fólksbifreiðum, vélsleðum, bifreiðum til bílaleigna og af bifreiðum til fatlaðra sem eru sérstaklega útbúnar hjólastólalyftu. Meginbreyting frv. felst í því að lagt er til að flokkum vörugjalds á fólksbifreiðar verði fækkað úr þremur í tvo. Þannig verði lagt 30% vörugjald á allar fólksbifreiðar með minni vélar en 2.000 rúmsentímetra en 45% vörugjald á bifreiðar með stærri vélar en það. Samkvæmt þessu verður ekki lengur gerður greinarmunur á vörugjaldi eftir því hvort um bensín- eða dísilbifreiðar er að ræða og má því segja að í raun sé vörugjaldsflokkum fækkað úr sex í tvo.

Samkvæmt gildandi lögum er vörugjald á fólksbifreiðar nú 30, 40 eða 65% eftir vélarstærð. Mörkin eru mismunandi eftir því hvort um bensín- eða dísilbifreiðar er að ræða. Undanfarin ár hefur vörugjald af fólksbifreiðum verið lækkað í áföngum og gjaldflokkum fækkað. Eitt meginmarkmið með þeim breytingum hefur verið að gera almenningi auðveldara að kaupa þær gerðir bifreiða sem hver um sig telur best henta sínum þörfum. Með því frv. sem hér er mælt fyrir er stefnt að því að stíga enn eitt skref í átt til minni neyslustýringar á þessu sviði, auðvelda fólki þannig að kaupa öruggari og betur búnar bifreiðar. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirrar öru þróunar sem verið hefur í öryggisbúnaði bifreiða undanfarin ár en stærri bifreiðar eru gjarnan betur búnar öryggisbúnaði en minni bílar og jafnframt iðulega búnar vélum með stærra sprengirými. Aukin notkun vel útbúinna bifreiða er án nokkurs vafa til þess fallin að draga úr alvarlegum umferðarslysum og m.a. með hliðsjón af því er lagt til að gjaldflokkum verði fækkað og vörugjald á fólksbifreiðar með aflmeiri vélar lækkað.

Undanfarin ár hafa tiltölulega fáar bifreiðar verið fluttar inn í 65% gjaldflokknum. Þannig hafa einungis verið fluttar inn 900--1000 bílar í þessum flokki ár hvert sl. þrjú ár, en á sama tíma hefur heildarinnflutningur fólksbifreiða verið á bilinu 12.000--17.000 bifreiðar. Mikill meiri hluta innfluttra bíla í efsta gjaldflokki, eða um sjö af hverjum tíu bifreiðum, hafa verið notaðar. Slíkur innflutningur á eldri gerðum bifreiða getur ekki talist þjóðhagslega hagkvæmur. Slíkar bifreiðar uppfylla í mörgum tilvikum síður þær kröfur sem nú eru gerðar til nýrra bifreiða að því er varðar mengunarvarnir og nýtingu eldsneytis. Af því leiðir að bílaflotinn mengar meira en ella væri. Enn fremur er talið að töluvert sé um að rangt tollverð sé gefið upp við innflutning á notuðum bifreiðum og er hvatinn þeim mun meiri eftir því sem gjaldprósentan er hærri.

Ég met það svo að lækkun á 65% vörugjaldi í 45% sé til þess fallin að draga úr innflutningi notaðra bifreiða sem eru eins og áður segir í mörgum tilvikum búnar ófullkomnum mengunarvarnabúnaði. Með því er stuðlað að því að heildarmengun frá bifreiðum minnki. Auk þess má vænta þess að innheimta aðflutningsgjalda verði betri og vegi þannig upp hugsanlegt tekjutap á þessari breytingu. Því til viðbótar vil ég nefna að mikil þróun hefur orðið á bensín- og dísilvélum undanfarin ár. Þessar vélar þurfa í mörgum tilvikum stærra sprengirými en hefðbundnar vélar en menga eftir sem áður minna. Því er eðlilegt að draga úr fylgni skattheimtu og sprengirýmis bílvéla.

Eins og þingmönnum er nú kunnugt og liggur í eðli máls af þessu tagi er nokkrum erfiðleikum háð að meta áhrif breytinga sem þessara á tekjur ríkissjóðs þar sem innflutningur bifreiða er sveiflukenndur og háður mörgum mismunandi þáttum. Þó má gera ráð fyrir að miðað við innflutning síðasta árs muni tekjur ríkissjóðs verða minni en ef innflutningurinn hefði af öðrum ástæðum verið óbreyttur. Munar þar e.t.v. 300--350 millj. kr. Á móti má gera ráð fyrir að breytingar á eftirspurn og innkaupamunstri í kjölfar lækkunar á vörugjöldum dragi úr þessu tekjutapi. Gera má ráð fyrir tilflutningi á bifreiðum á milli gjaldflokka eftir því sem fleiri kaupa sér stærri bifreiðar en áður.

Til að gefa nokkra mynd af áhrifum þessara breytinga á útsöluverð fólksbifreiða má nefna að gera má ráð fyrir að framangreindar breytingar á vörugjöldum af fólksbifreiðum muni að öðru óbreyttu leiða til þess að útsöluverð bensínbifreiða með 1.600--2.000 rúmsentímetra vélum lækki um 5--7% en útsöluverð bensínbifreiða með yfir 2.500 rúmsentímetra vélum og dísilbifreiða með yfir 3.000 rúmsentímetra vélum um 10--13%. Hins vegar má gera ráð fyrir því að breytingin hafi þau áhrif að verð á bensínbifreiðum með 2.000--2.500 rúmsentímetra vélum og dísilbifreiðum með 2.000--3.000 rúmsentímetra vélum geti hækkað um allt að 2--3%. Enginn getur þó sagt nákvæmlega fyrir um þessar breytingar því samkeppni er mikil á þessum markaði og ég tel persónulega ekki líklegt að bifreiðaumboð muni láta verðhækkun af þessum toga og þessari stærðargráðu koma fram í verðlagi til neytenda. Að öðru óbreyttu mundi lækkun á útsöluverði fólksbifreiða samkvæmt þessum tillögum leiða til tæplega 0,2% lækkunar á framfærsluvísitölunni.

Þess má geta að við vinnslu þessa frv. hefur verið litið til ýmissa sjónarmiða sem fram hafa komið á undangengnum mánuðum, missirum og árum frá samtökum ýmissa hagsmunaaðila á þessu sviði. Þannig hafa Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Bílgreinasambandið farið þess ítrekað á leit við fjmrn. að það beitti sér fyrir því að vörugjald af ökutækjum verði lækkað og gjaldflokkum fækkað. Síðast á laugardag á aðalfundi Bílgreinasambandsins voru tilmæli þessa efnis ítrekuð og bárust þau mér í hendur í dag. Í þessu efni hafa ofangreind samtök verið samstíga um að mæla með því að gjaldtakan yrði miðuð við tvo flokka, annars vegar að bifreiðar með undir 2.000 rúmsentímetra vélum beri 30% vörugjald en bifreiðar með stærri vélum 40% gjald. Með þessu frv. er verulega komið til móts við þessa aðila þó ekki sé unnt að ganga alla leið. Hér er sem sagt gert ráð fyrir tveimur flokkum með 30 og 45% gjaldi en Bílgreinasambandið og FÍB hafa lagt til að flokkarnir yrðu með 30 og 40% gjaldi. Við teljum ekki forsendur til að stíga stærra skref til lækkunar vörugjalda við núverandi aðstæður og því er óhjákvæmilegt að mæta lækkuðum tekjum með nokkurri hækkun á ákveðinn flokk bifreiða, einkum ef það mark á að nást að fækka gjaldflokkunum í tvo.

Með tilliti til þeirra breytinga á almennu vörugjöldunum sem eru meginefni þessa frv. er lagt til að vörugjald á bifreiðum til fatlaðra sem búnar eru hjólastólalyftu verði 10% í stað 30% samkvæmt gildandi lögum. Ef sérreglur giltu ekki um þessa tegund bifreiða mundu þær bera 40--65% vörugjöld eftir atvikum samkvæmt gildandi lögum en 30--45% samkvæmt því sem lagt er til í frv. Hér er sem sagt lögð til sérregla um að þessar bifreiðar muni framvegis njóta ívilnunar og greiða einungis 10% gjald í stað 30% eins og núverandi lög gera ráð fyrir.

Í frv. er einnig lagt til að vörugjald af bifhjólum, vélsleðum og fjórhólum verði lækkað úr 70% í 30%. Vörugjöld af þessum ökutækjum hefur verið óbreytt frá árinu 1991. Á sama tíma hafa vörugjöld af öðrum ökutækjum lækkað verulega. Ekki þykir ástæða til þess að leggja mun hærri gjöld á ökutæki af þessu tagi enda hefur það leitt til óæskilegra tilrauna manna til þess að koma slíkum tækjum hingað til lands með óeðlilegum hætti. Miðað við innflutning á síðasta ári má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 50 millj. kr. lægri vegna þessara breytinga en að óbreyttum lögum.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að í frv. er lagt til að um vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu frá bílaleigum gildi sömu reglur og um vörugjald af leigubifreiðum. Af slíkri breytingu leiðir að bílaleigur geti keypt fólksbifreiðar til starfsemi sinnar með 10--13% vörugjaldi eftir því um hvorn gjaldflokk bifreiða er að ræða. Þessi breyting er í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum, þ.e. að lækka vörugjald af ökutækjum sem notuð eru í atvinnurekstri. Í þessu sambandi skiptir miklu máli að þjónusta við erlenda ferðamenn sem nýta sér bílaleigubifreiðar sem samgöngutæki er arðvænleg atvinnugrein sem skilar miklum virðisauka í þjóðarbúið. Á það hefur ítrekað verið bent á undanförnum árum af aðilum í ferðaþjónustu að hátt verð á bifreiðum til þessarar starfsemi hafi hamlað uppbyggingu þessarar þjónustu hér á landi. Með þessum breytingum er stefnt að því að koma til móts við ferðaþjónustuna á þessu sviði og gera hana betur samkeppnishæfa í samanburði við slíka þjónustu í öðrum löndum.

Í þessu sambandi vek ég athygli á því að ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frv. til laga um leigu á ökutækjum. Því frv. hefur verið útbýtt á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að samgrn. gefi út starfsleyfi fyrir bílaleigur auk þess að setja almenn skilyrði fyrir rekstri slíkrar starfsemi.

Í frv. því sem hér er mælt fyrir er lagt til að skilyrði fyrir lækkun vörugjalds af bílaleigubifreiðum verði nokkuð ströng. Það er gert til þess að tryggja sem best að þær bifreiðar sem bera lægra vörugjald samkvæmt greininni verði eingöngu notaðar til útleigu frá bílaleigum og ekki með öðrum hætti. Því er samþykkt frv. samgrh. um bílaleigur forsenda þess að þau ákvæði frv. sem hér er mælt fyrir geti náð fram að ganga og skilað árangri.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Það liggur fyrir að hér er komið til móts við óskir sem settar hafa verið fram um langt árabil af hálfu hagsmunaaðila, einkanlega Bílgreinasambandsins og Félags bifreiðaeigenda en einnig aðila í ferðaþjónustu. Sama gildir um aðila sem reka og eiga bifhjól eða stunda rekstur á vélsleðum, fjórhólum og þess háttar tækjum. Hér er í einu frv. reynt að koma til móts við fjölmörg sjónarmið á þessu sviði.

Ég tel að kjarni þessa máls sé viðleitni til þess að draga úr neyslustýringu á þessu sviði og örva fólk til að kaupa öruggari bíla sem minna menga heldur en nú gerist. Einnig er hér viðleitni til að ná utan um óæskilegan innflutning á notuðum bifreiðum þar sem löngum hefur verið grunur um að maðkur gæti verið í mysunni. Hér er náð utan um mörg markmið samtímis, með tiltölulega litlum herkostnaði að dómi okkar sem berum ábyrgð á samningu þessa frv.

Ég legg til að frv. þessu verði, herra forseti, vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. þegar þessari umræðu lýkur.