Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 19:02:42 (5846)

2000-04-03 19:02:42# 125. lþ. 88.6 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 125. lþ.

[19:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þetta frv. sem er afturhvarf frá forsjárhyggju. Nú á að hætta að stýra neyslu fólks í jafnríkum mæli og hingað til hefur verið. Sú var tíð, herra forseti, að það þótti engin goðgá að setja lúxustolla á sápur og annan munað sem menn við græn skrifborð ákváðu að væri munaður og það átti almenningur ekki að kaupa. Sá tollur sem við ræðum, þetta 65% vörugjald, eru leifar frá þessum tíma. Þetta hefur leitt til þess að í rauninni eru mjög fáir bílar fluttir inn sem falla undir þessi lög og flestir notaðir, um 70% eins og komið hefur fram í umræðunni. Það er náttúrlega segin saga að ákaflega erfitt er að komast að því hvert er innkaupsverð notaðs bíls vegna þess að John í Bandaríkjunum getur selt James í Bandaríkjunum einhvern bíl á 1.000 dollara eða 10.000 dollara, það veit enginn. Síðan kaupir einhver Íslendingur þennan bíl. Hvort hann kaupir hann á 10.000 dollara eða 1.000 dollara veit heldur enginn. Þegar hann flytur þennan bíl til Íslands getur hann alveg eins hafa keypt hann á einhverri útsölu, brunaútsölu eða eitthvað slíkt, og ómögulegt er að komast að því hvert innkaupsverðið var í Bandaríkjunum. Auðvitað kunna einhverjir að hafa spilað á þetta. Ég reikna því með því að þessi breyting verði til þess að menn hætti þessari vitleysu og fari að flytja inn nýja bíla í staðinn fyrir notaða sem væru þá með raunverulegt verð og að tekjur ríkissjóðs muni þá aukast.

Ekki er hægt að tala um þetta mál án þess að geta þess að einhverjir munu hafa keypt bíl í gær eða fyrir helgina með 65% tolli og tekið til þess há lán, verið jafnvel með 80--90% lánað, og þeir sitja allt í einu uppi með það að þeir eiga minna en ekki neitt eftir þau viðskipti, að eigið fé sem þeir lögðu fram er horfið. Þetta er náttúrlega eitthvað sem menn þurfa að búast við og þetta er fylgifiskur slíks frv. um tollalækkanir en menn þurfa að átta sig á þessu. Einhver kann að vera í þeirri stöðu að hann neyðist til þess, af því hann getur ekki borgað þær háu greiðslur sem hann var búinn að setja sig í, að selja bílinn og þá er skaðinn skeður. En þetta höfum við séð áður við niðurfellingu tolla og vörugjalda.

Auðvitað eiga menn að stefna að því að hafa einn flokk, vera ekkert að stýra því hvernig einstaklingurinn verslar, hvað hann kaupir og hvernig hann kaupir. Þó að engan veginn sé skynsamlegt að kaupa svona dýra bíla, ég mundi aldrei gera það, þá er ég ekkert að hafa vit fyrir öðru fólki sem telur það ánægjunnar virði að kaupa bíl upp á 3 eða 4 milljónir sem er svo yfirgengilega hátt verð að ég get ekki einu sinni hugsað mér það. Ég er samt á móti því að hafa áhrif á það og stýra því hvernig annað fólk hegðar sér.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gat um áhrif á þenslu. Það eru viðurkennd fræði að það eigi að hækka skatta þegar er þensla og lækka þá þegar er kreppa. En í þessum sérstöku vörutegundum er innlendur virðisauki mjög lítill hluti af verði bílsins, það er eiginlega bara sölumennskan sem er kannski 8 eða 9%. Það gæti því hent, herra forseti, að þetta virkaði öfugt á þenslu, vegna þess að þeir menn sem kaupa sér bíl og taka á sig skuldbindingu upp á 50 þús. kr. á mánuði gera ekkert annað við peninginn, eins og þeir menn sem keypt hafa svona dýra bíla hafa væntanlega orðið varir við. Þeir geta ekki keypt mikið annað fyrir þann sama pening og þá geta þeir heldur ekki keypt innlendar vörur fyrir þann sama pening. Þar sem meginhlutinn af verði bílanna fer annaðhvort í ríkissjóð eða til útlanda, yfir 90%, getur þetta jafnvel virkað þannig að það slái á þenslu að menn kaupi sér bíla. En auðvitað er önnur hlið á þeirri medalíu sem eru erlendar skuldir þjóðarinnar. Ég deili því með öðrum hv. þm. að það er mjög mikið áhyggjuefni og þarf að taka til sérstakrar skoðunar.

Ég held að sú breyting sem verið er að gera muni ekki stórauka innflutning á bílum, menn eru þegar það vel ,,bílaðir`` eftir velgengni undanfarinna ára og auk þess held ég að það séu ekki voðalega margir Íslendingar svo óskynsamir að kaupa svona mjög dýra bíla.