Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 19:07:52 (5847)

2000-04-03 19:07:52# 125. lþ. 88.6 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 125. lþ.

[19:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrir málefnalegar ræður. Hér hefur verið hreyft flestum þeim sjónarmiðum sem máli skipta í sambandi við mál af þessu tagi og kannski ekki ástæða til þess að lengja mikið umræðuna með því að velta þessum atriðum sérstaklega fyrir sér. Spurt var hvenær væri rétti tíminn til að gera svona breytingu. Hann er eflaust aldrei ef menn líta til aðstæðna að öðru leyti í þjóðfélaginu. Hann er a.m.k. jafngóður eða jafnslæmur núna eins og einhvern tímann seinna eða jafnvel einhvern tíma á fyrri tíð.

Menn hafa mikið velt fyrir sér áhrifum þessara breytinga á þensluna svokölluðu, viðskiptahallann og þess háttar. Ég tel ekki að þar sé nein stórfelld hætta á ferðum. Ég tel að bílamarkaðurinn á Íslandi sé það mettaður að þó að búast megi við því að breytingar verði í því hvers konar bíla fólk kaupi verði ekki endilega mikil breyting í fjölda þeirra. Þar fyrir utan erum við að tala um breytingu upp á, eftir því sem okkur sýnist, 300--350 millj. kr. Þótt okkur finnist það stórar upphæðir, og það eru þær auðvitað fyrir hinn almenna borgara, þá eru það ekki upphæðir sem velta þungu hlassi í hagkerfi sem er upp á 700 milljarða. Við megum því ekki mikla þessi áhrif fyrir okkur. En að því er varðar tekjur ríkissjóðs er það vissulega til umhugsunar, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði, hvort það verður yfirleitt nokkurt tekjutap af svona breytingum. Ekki er hægt að fullyrða um það og þetta er bara spá um þessar 300 millj. sem er byggð á óbreyttri eftirspurn og byggð á framreikningi og ákveðnum líkindum.

Ýmsir aðrir aðilar sem hafa komið nálægt þessu máli hafa fullyrt það við okkur í ráðuneytinu að tekjutapið verði lítið sem ekkert. Um það vil ég ekki dæma, við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur og höfum þess vegna reiknað með einhverju tekjutapi af þessu.

Það var líka spurt hvert þessi ívilnun beinist. Í máli einhverra þingmanna lá í loftinu að verið væri að hygla hinum efnameiri. Ég tel alls ekki að svo sé. Það liggur fyrir að samkvæmt þessum breytingum munu tilteknir mjög algengir fólksbílar lækka um 7% í verði miðað við hreinan framreikning á meðan stærri bílar lækka kannski um 12%. En við skulum hafa í huga að notaðir bílar munu væntanlega lækka sambærilega mikið og þannig verður fleirum gert kleift að kaupa sér notaðan bíl af dýrari tegund, væntanlega betri, öflugri og öruggari bíl.

Það er því í raun og veru svo með mál eins og þetta að þó að verð á nýjum bíl lækki mun það hafa áhrif niður allan skalann, ef svo má að orði komast, að því er varðar notaða bíla og koma þar með öllum þeim til góða sem nýta sér slíka bíla eða kaupa notaða bíla.

Það er ekki hægt, held ég, að taka breytingu sem þessa og stilla henni upp með tilliti til áhrifa á ákveðna tekjuhópa í þjóðfélaginu. Það er alltaf ákveðin tilhneiging til að gera það. Þar fyrir utan eru ýmsir sem hafa kannski ekkert sérstaklega mikil auraráð sem hafa gaman af því að verja sínum takmörkuðu fjármunum í bíla og þá kannski í svolítið íburðarmeiri bíla en almennt gerist. Það verður þá að vera einkamál þess fólks og eðlilegt að menn hafi valfrelsi um slíka hluti. En að draga úr neyslustýringu eins og hér er lagt til greiðir fyrir því að fólk geti tekið slíkar ákvarðanir upp á eigin spýtur og án atbeina hins opinbera.

Ég get því miður ekki svarað spurningu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um mismuninn á milli dísil- og bensínbifreiða að því er varðar hvoru eldsneytinu er betra að brenna. Ég geri ráð fyrir að það sé spurning sem gæti komið upp í þingnefndinni en hins vegar finnst mér eðlilegt að ríkið láti það afskiptalaust að því er varðar gjaldtöku hvort menn kjósa frekar að velja sér bensínbíl eða dísilbíl og láti innkaupsverð og reksturskostnað slíkra bíla ráða því hvað verður fyrir valinu. Það hefur verið heilmikil stýring í þessu í dag sem hefur t.d. þýtt það að mjög lítið er flutt inn af bensínbílum í dýrari flokkunum. Auðvitað hafa innflytjendur hagað því svo að þeir hafa flutt inn bíla sem hafa verið rétt undir stærðarmörkum í þessum mismunandi flokkum. Það hefur verið þannig undanfarið að mjög hagstætt hefur verið að flytja inn dísilbíla sem hafa verið rétt undir 3.000 sm3 mörkunum, það hefur komið vel út, en aftur verr að vera með örlítið stærri vélar í þessum bílum. Þetta mun breytast, þetta mun að sjálfsögðu hafa áhrif á það hvers konar bílar verða fluttir inn. Það held ég sé eðlileg breyting og það sé eðlilegt að menn taki slíkar ákvarðanir á grundvelli innkaupsverðs bíla og reksturskostnaðar en ekki á grundvelli þess hvernig ríkið kýs að skattleggja slík tæki. Skattlagningin á að mínum dómi að vera sem hlutlausust.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir umræðuna og þær málefnalegu spurningar sem komu fram. Ég vænti þess að menn fái svör við öðrum spurningum í efh.- og viðskn. á fundinum á eftir.