Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 13:42:18 (5849)

2000-04-04 13:42:18# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þingskjalinu þar sem þetta nál. frá iðnn. er ritað, var ég ekki viðstödd þegar málið var afgreitt. Mig langar þess vegna til að láta það koma fram að ég hefði kannski skrifað undir þetta mál með fyrirvara og þó ekki, því að sú umræða sem varð í nefndinni vegna þeirra tekjustofna eða opinberu gjalda sem koma til lítilla sveitarfélaga kemur mjög skýrt fram í nál. Í þessu máli eru það tveir hreppar sem fá aðaltekjurnar af álbræðslunni á Grundartanga og þarna er verið að fjalla um stækkun þannig að þetta eru bara viðbótartekjur sem koma til Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps. Ég tel því mjög mikilvægt, herra forseti að þessi mál verði skoðuð því að eins og þarna háttar til eru tveir litlir hreppar í nágrenninu og svo Akraneskaupstaður sem ekki njóta neinna opinberra gjalda af þessari stóriðju, en engu að síður eru þau sveitarfélög með ákveðna þjónustu við þá sem starfa við stóriðjuna. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þetta verði skoðað, sérstaklega í ljósi þess að þegar lítil sveitarfélög eða litlir hreppar hafa fengið miklar tekjur af stóriðju hefur það komið í veg fyrir vilja þeirra sveitarfélaga til að sameinast öðrum sveitarfélögum. Ég held að ákvarðanir verði að koma frá Alþingi sem ýta undir frekari sameiningu sveitarfélaganna og að taka þurfi á þeim þætti sem eru tekjustofnarnir frá stóriðjunni og þeir þurfi að dreifast víðar en á þessi litlu sveitarfélög.

Ég vil, herra forseti, láta það koma fram í þessari umræðu að mjög brýnt er að tekið verði á þessum málum. Ekki þótti eðlilegt að leggja til einhverjar breytingar í þessu máli þar sem þetta er bara afmarkað mál og um ákveðna stækkun er að ræða en það þarf að taka á þessum málum og skoða þau í frekara samhengi og það fyrr en síðar.