Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:03:14 (5854)

2000-04-04 14:03:14# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég áttaði mig allt í einu á því í ræðu hv. þm. hvers vegna andstaða hennar við stóriðju er svona mikil því hún afhjúpaði hér þá sýn og skilning sinn að það væri stefna stjórnvalda að bjóða álver í hvern fjörð og hvern dal. Þá áttaði ég mig á því hvers vegna hv. þm. hefur talað svona einarðlega gegn stóriðju. En ég vona að það sé hv. þm. til huggunar að það er misskilningur. Þarna gætir einhvers misskilnings. Ég hygg að þessi stefna í stóriðju sem hv. þm. lýsti hafi aldrei nokkurs staðar komið fram nema þá hjá hv. þm.

Hvað varðar vandræðagang stjórnvalda þá er það málflutningur sem ég get ekki tekið undir. Ég vil benda á það sem fram kom m.a. í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þ.e. rétt sveitarfélaga. Það er svolítið stórt mál að ganga á þann rétt sveitarfélaga að svipta þau heimildinni til þess að leggja fasteignagjöld á þá starfsemi sem fram fer í hverju sveitarfélagi. Hins vegar er hv. iðnn. að benda á ýmis pólitísk rök fyrir því að taka þessi mál til endurskoðunar. Ég tel það ekki vandræðagang heldur er einungis verið að benda á ýmsar hliðar þessa máls. Það er stórmál að svipta sveitarfélög þeim rétti sínum að leggja fasteignagjöld á fyrirtæki.