Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:04:58 (5855)

2000-04-04 14:04:58# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna andsvars hv. þm. Hjálmars Árnasonar er rétt að það komi fram að maður skyldi ætla að stjórnvöld sem reka stóriðjustefnu á þann hátt sem stjórnvöld gera í dag ættu að starfa af fyrirhyggju og útsjónarsemi á öllum sviðum og alveg niður á hið smæsta. Það er ljóst að það hefur ekki verið gert hér og fyrir það er rétt að gagnrýna stjórnvöld.

Ég fagna því hins vegar að hv. þingmenn iðnn. skuli benda á að hér sé úrbóta þörf og tek undir það þannig að það fari ekki á milli mála að hér þarf auðvitað að hugsa hlutina algerlega ofan í kjölinn, niður í rót. Það er hv. iðnn. að benda á og það er af hinu góða. En það breytir því ekki að stjórnvöld liggja undir ámæli fyrir að hafa ekki hugsað málið nægilega vel.