Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:06:01 (5856)

2000-04-04 14:06:01# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sem nefndarmaður í iðnn. fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð stend ég að þessu nál. enda tel ég að við stöndum frammi fyrir gerðum hlut. Ég get ekki látið hjá líða, eins og margir aðrir hafa gert í þessari umræðu, að velta upp spurningum í sambandi við fyrirtæki af þessari stærðargráðu og nálgast þetta frá þeim vinkli sem ég tel að sé kannski alvarlegastur í þessu öllu, því að sú staða að vera með gjaldtöku af svo stórum, við skulum segja, landsfyrirtækjum inn í svo litla hreppa er stóralvarlegt mál út frá því að það er skoðanamyndandi um hvað skuli gera.

Það er ekkert smámál fyrir lítinn hrepp upp á 200--300 manns að standa frammi fyrir fleiri milljóna króna tekjum. Það er ekkert smámál vegna áforma okkar um sameiningu og samvinnu að standa frammi fyrir því að hreppar með örfá hundruð íbúa, kannski bara 300 íbúa, hafa svo miklar tekjur af þessum landsfyrirtækjum að þeir hafi engan áhuga á samvinnu, hvað þá heldur sameiningu. Þessi vinkill er í raun og veru stórhættulegur vegna þess að ef verið er að áforma framkvæmdir af slíkri stærðargráðu þá verða viðkomandi sveitaryfirvöld gagnrýnislaus vegna þess að peningamálin verða ofar öllu öðru í huga manna.

Það er svo greinilegt í umræðunni um stóriðju, og getum við þá farið aftur í tímann til desember þegar við ræddum um Austurland, að sveitarstjórnarmennirnir keyra ákafast á stóriðjuna út frá peningalegum beinum greiðslum sem þeir sjá fram á, í staðinn fyrir að þeir ættu að vera í þeirri stöðu að geta litið á málin gagnrýnni augum þegar verið er að plana svona hluti. Þessari sýn vildi ég koma á framfæri vegna þess að ég held að þetta sé einmitt stórhættulegt í umræðunni, sérstaklega þegar við erum með lítil sveitarfélög sem taka við slíkri starfsemi.

Það hefur komið fram í umræðunni að mjög víða um land standa menn frammi fyrir því að það er tregða í sambandi við samvinnu, alla vega í sambandi við sameiningu sveitarfélaga út af slíkum aðstöðumun sem skapast af stórframkvæmdum. Þetta þekkjum við úr uppsveitum Árnessýslu. Þetta þekkjum við norður í landi og þetta höfum við norðan Skarðsheiðar eins og dæmin sanna, í Rangárvallasýslu og á fleiri stöðum. Út frá þessum atriðum held ég að sé alveg tímabært að taka þessa hluti með inn í umræðuna þegar við ræðum um stórar framkvæmdir. Það gildir svo sem einu hvort þar er um málmbræðslur eða aðrar stóriðju- eða stórframkvæmdir að ræða. Það er seinni tíma mál sem við þurfum að taka á. Ég get tekið undir með hv. 4. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, að full ástæða er til þess að þingið skoði þetta mál jafnvel í framhaldi af þessari afgreiðslu hér, þ.e. hvort við eigum ekki að taka upp sveitarstjórnarmál, samvinnumál sveitarfélaga, og líta alvarlega á þau í framhaldi af þessu því að svona tel ég að þetta geti ekki gengið.

Fólk horfir upp á svo augljósa mismunun og þetta gildir um marga hreppa. Það er verið að malbika heim að bæjum. Það er verið að nota peninga til þess að lýsa heimreiðir. Það er góðra gjalda vert ef það væri á færi allra. En það er svo langt í frá. Þetta skapast af þessari aðstöðu. Síðan gerist það líka að nágrannarnir sem eru kannski álíka margir eru eins og fátæklingar við hliðina á ríku mönnunum og eru komnir í þá hlægilegu stöðu að þurfa að vera ölmusumenn. Þeir sem eru ríkari eru farnir að borga heldur meira í skólann og heldur meira í ýmis sameiginleg verkefni. Þvílík staða. Þvílík leiðindi fyrir nágranna. Á þessum grunni vil ég að þetta sé skoðað. Ég vil árétta það, virðulegi forseti, að ég stóð að þessu nál. sem iðnaðarnefndarmaður fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð, enda lít ég á þetta sem afgreiðslu á gerðum hlut.