Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:11:00 (5857)

2000-04-04 14:11:00# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það búa innan við 500 manns í öllum þessum fjórum hreppum þannig að við erum að tala um 130--140 manneskjur í þeim hreppi sem mestar tekjur hefur. Það er ekki bara það. Hann mat á sínum tíma þörf sína fyrir tekjur upp á 3%. Útsvarið var hækkað með lögum frá Alþingi þegar ákveðið var að Reykjavíkurborg þyrfti að fá rúm 7% í tekjur. Af því að hún gat ekki tekið ákvörðun um það sjálf þá var það gert á hv. Alþingi og þar með voru tekjurnar meira en tvöfaldaðar hjá þessum litla hreppi. Og svo er meira. Þá var bara ein verksmiðja í hreppnum. Eftir að þetta gerist kom ný verksmiðja til viðbótar, álverksmiðjan. (Gripið fram í: Hún er í tveimur sveitarfélögum.) Henni er að vísu skipt á milli tveggja sveitarfélaga. En nú kemur stækkunin enn þar ofan á. Þar sem þeir mátu þörf sína fyrir tekjur á sínum tíma upp á 3% þá hljóta menn í því samhengi að sjá að þeir hljóta að hafa býsna rúm fjárráð núna og mér finnst hálfömurlegt að menn skuli ekki hafa fundið leiðina til þess að komast ofan í vasann hjá þeim aftur.