Skipulag ferðamála

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:20:43 (5861)

2000-04-04 14:20:43# 125. lþ. 89.7 fundur 366. mál: #A skipulag ferðamála# (menntun leiðsögumanna) frv. 20/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér einungis til þess að vekja athygli á niðurlagi bréfs hv. menntmn. sem nefndin sendi hv. allshn. við umfjöllun málsins. Í bréfinu kemur fram að nefndin er sammála um að námið sé mjög sérhæft og leggur áherslu á að í engu sé verið að breyta inntaki námsins né inntökuskilyrðum og þau skilyrði sem sett eru nú fyrir inngöngu í námið haldist óbreytt.

En í nefndinni urðu talsverðar umræður um óheppilegt orðalag í grg. með frv. þar sem fram kom að framhaldsskólalögin kæmu til með að ná yfir þetta nám. Það hefur valdið ákveðnum titringi í leiðsögumannastétt að heyra áform um að námið skuli skilgreint á framhaldsskólastigi en ekki á háskólastigi.

Hv. menntmn. tók í sjálfu sér ekki afstöðu efnislega til þessa atriðis en ítrekar það í bréfi sínu að nauðsynlegt sé að þessi mál verði skoðuð í heild sinni, sérstaklega er varðar staðsetningu námsins í menntakerfinu. Svo það sé alveg skýrt og því sé haldið til haga þá tók hv. menntmn. í rauninni ekki afstöðu í þessu ágreiningsmáli en telur mjög brýna ástæðu til að taka þetta nám og skoða það með skilgreiningar menntakerfisins okkar í huga og ákvörðun verði tekin um það eða ljósi varpað á það undir hvaða skólastig þetta nám skuli heyra.