Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:42:27 (5869)

2000-04-04 14:42:27# 125. lþ. 89.10 fundur 484. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skattleysismörk) frv. 9/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá því 10. mars sl. þar sem lagðar voru línur að því er varðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000.

Þetta frv. er í sjálfu sér ekki flókið mál. Það er aðeins tvær efnisgreinar en í því kemur fram sá ásetningur ríkisstjórnarinnar í beinu framhaldi af yfirlýsingunni sem ég nefndi að breyta persónuafslætti í skattalögum þannig að persónuafslátturinn og skattleysismörkin hækki í samræmi við þær launabreytingar sem ákveðnar eru í kjarasamningum Flóabandalagsins sem hefur nú verið staðfestur í almennri atkvæðagreiðslu félagsmanna þess.

Gert er ráð fyrir því í frv. að hækkun persónuafsláttar og skattleysismarka komi fram í áföngum frá og með 1. apríl á þessu ári allt fram til ársins 2003. Persónuafslátturinn hefur þegar hækkað um 2,5% frá og með 1. janúar sl. en samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að hann hækki á ný um 2,5% með gildistíma frá síðustu mánaðamótum þannig að heildarhækkunin á árinu 2000 nemi 5%. Þar með verður hækkunin á árinu 2000 allnokkru meiri en sú launahækkun sem ákveðin er í margumræddum kjarasamningi.

Enn fremur er gert ráð fyrir því í frv. að persónuafsláttur hækki um 3% 1. janúar nk., 3% 1. janúar árið 2002 og um 2,25% 1. janúar árið 2003. Samanlögð hækkun á árunum 2000--2003 er því tæplega 14%.

Um þetta atriði snýst frv. Það er væntanlega flestum þingmönnum vel kunnugt og breytingin sjálf er tæknilega séð mjög einföld og ekki óalgeng í sölum þingsins þegar á annað borð er verið að breyta þessum lögum.

Það kom til tals í þinginu fyrir tæplega hálfum mánuði að dregist hefði að mæla fyrir þessu frv. Ástæðurnar fyrir því voru raktar á þeim tíma. Beðið var úrslita í atkvæðagreiðslu Flóabandalagsins. Úrslit liggja fyrir nú og því ekki eftir neinu að bíða með að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum.

Ég vænti þess að frv. geti fengið greiða meðferð í gegnum Alþingi þannig að hægt sé að framkvæma ákvæði þess frá og með næstu mánaðamótum, bæði gagnvart þeim sem fá laun sín greidd eftir á og gagnvart þeim sem eru á fyrirframgreiddum launum. Þar sem þetta mál kemur til uppgjörs um næstu mánaðamót vænti ég þess að efh.- og viðskn. hafi hraðar hendur við að afgreiða þetta frv.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umræðunni vísað til efh.- og viðskn. og til 2. umr.