Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:46:52 (5870)

2000-04-04 14:46:52# 125. lþ. 89.10 fundur 484. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skattleysismörk) frv. 9/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel afar þýðingarmikið að verkalýðshreyfingin hafi náð fram breytingu á skattleysismörkum og persónuafslætti í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Þróun skattleysismarka hefur á umliðnum árum verið láglaunafólki afar óhagstæð og löngu tímabært að leiðrétta kúrsinn í þeim efnum.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér frá Þjóðhagsstofnun kemur fram að 14 þúsund láglaunafjölskyldur, sem voru skattlausar á árinu 1995, voru á árinu 1998 farnar að greiða skatt af launum og lífeyri sem eru varla til að lifa af þar sem skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun. Ef skattleysismörk hefðu fylgt launaþróun hefðu þau átt að vera tæplega 80 þús. kr. á árinu 1999 í stað liðlega 63 þús. kr.

Einnig er athyglisvert að skoða skattleysismörkin frá árinu 1988 til ársins 2000 og sjá þá þróun sem þar hefur orðið. Vissulega hafa fleiri ríkisstjórnir en sú sem nú er farið þá leið að láta ekki skattleysismörkin fylgja launaþróun. Þegar þróun skattleysismarka er skoðuð frá árinu 1988 kemur þó í ljós að þau voru mun nær því að fylgja þróun launa og verðlags á niðursveifluárum í efnahags- og atvinnulífi á árunum 1988--1994 en í góðærinu eftir að núv. ríkisstjórn tók við árin 1995--1999. Eins og ég nefndi áðan þá hefur þeim fjölgað um 14 þúsund manns sem þurfa að fara að greiða skatta af lágum launum sínum frá árinu 1995.

Á árinu 1988 fylgdu skattleysismörkin launa- og verðlagsþróun. Þar var ekkert bil á milli en strax á árunum 1989--92 hækkuðu skattleysismörkin umfram launaþróunina en voru ívið lægri en launavísitala árin 1993 og 1994. Þar munar 500--1.500 kr. Eftir árið 1995 byrjar hins vegar að síga verulega á ógæfuhliðina og munur á skattleysismörkum og launavísitölu verður allt frá 5.000 til tæpra 17.000 kr. á árunum 1996--1999. Ljóst er að þegar skattleysismörk fylgja ekki launum dregur mjög úr tekjujöfnunaráhrifum skattkerfisins. Það kemur verst niður á fátækasta fólkinu, láglaunafjölskyldum og síðan lífeyrisþegum og einstæðum foreldrum, en stór hópur einstæðra foreldra fyllir einmitt láglaunahópinn. Þegar litið er á þróun persónuafsláttar sl. 13 ár kemur í ljós að persónuafsláttur hækkaði á árunum 1988--1995 um tæpar 9.000 kr. en frá árinum 1996--1999 hefur persónuafslátturinn lækkað úr 24.500 í rúmar 23.000 eða um tæplega 1.300 kr.

Með samkomulagi sem Flóabandalagið gerði í tengslum við nýgerða kjarasamninga hækkar persónuafslátturinn í áföngum. Í byrjun árs 2003 verður hann þó aðeins 26.588 kr. Þá hefur verið tekið tillit til allra þeirra hækkana sem koma árlega á næstu fjórum árum. Þegar litið er til skatthlutfallsins þá var það á árunum 1988--1994 á bilinu 35% og fór í 42% á þessu sex ára tímabili en á árunum 1996--1999 var það tæplega 42% fram til maí 1997 þegar það lækkaði í tengslum við kjarasamninga. Nú er það liðlega 38%.

Með því að ríkisstjórnin hefur kosið að láta skattleysismörkin dragast verulega aftur úr launaþróun eins og þessar tölur staðfesta hefur tekjumunur í þjóðfélaginu aukist verulega enda hafa ráðstöfunartekjur láglaunafólks aukist hlutfallslega mun minna en hjá fólki með hærri tekjur. Þar á ofan var fátækasta fólkið látið borga fyrir lækkun á skatthlutfallinu, skatthlutfalli annarra, um tæp 4% í tengslum við kjarasamningana 1997 með raunlækkun skattleysismarka. Það hefur einmitt komið fram hjá ASÍ að við lækkun á skatthlutfallinu árið 1997, sem kom auðvitað mörgum til góða, kostaði ríkissjóður það með því að láta skattleysismörkin dragast aftur úr. Það kom niður á þeim verst settu. Það sem ríkið sparaði með lækkun skattleysismarka var með öðrum orðum notað til að lækka skatta þeirra betur settu. Þannig hefur skattbyrði lágtekjufólks verið þyngd á undanförnum árum miðað við skattbyrði þeirra sem hafa hærri tekjur.

ASÍ gerði á síðasta ári mjög merkilega úttekt á skattkerfinu þar sem m.a. er farið ítarlega yfir skattleysismörkin og þróun þeirra á undanförnum árum og áhrif þeirra á tekjur launafólks og hvað það þýðir í sparnaði fyrir ríkissjóð að láta skattleysismörkin ekki fylgja launaþróun. Í úttekt ASÍ eru tekin nokkur viðmið á hækkun launa og tekna á árunum 1996--1999. Þá kemur í ljós að laun hafa hækkað um 23,4% á tímabilinu en á sama tíma hafa skattleysismörk einungis hækkað um 5,1%. Munurinn þar á er því um 17%. Það munar auðvitað gífurlega mikið um það fyrir kjör láglaunafólks.

Í skýrslu ASÍ um skattamálin segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ef skattleysismörk eru vísvitandi látin dragast aftur úr launaþróun og þær tekjur sem ríkissjóður fær vegna þessa nýttar til lækkunar á almennri tekjuskattsprósentu þá er verið að draga mjög úr tekjujöfnun.``

Það er alveg ljóst að skattleysismörkin hafa gegnt veigamiklu hlutverki, jöfnunarhlutverki í skattkerfinu. Með öðrum orðum urðu skattalagabreytingarnar 1997 til þess að skattbyrði lágtekjufólks þyngdist miðað við skattbyrði þeirra sem meira hafa milli handanna. Reyndar segir í skýrslu ASÍ að hér hafi verið um tilfærslu á skattbyrðinni að ræða, það var verið að þyngja þetta hjá láglaunahópunum.

ASÍ kemst að þeirri niðurstöðu að a.m.k. sé nauðsynlegt að skattleysismörkin fylgi lágmarkshækkun samkvæmt kjarasamningum og þannig sé tryggt að kjarabætur skili sér að fullu til þeirra sem fá einungis launahækkanir í samræmi við kjarasamninga. Það er einmitt lagt til í frv. sem við ræðum hér. Við það að skattleysismörkin fylgi lágmarkshækkunum samkvæmt kjarasamningum eykst meðalskattbyrði aftur á móti eitthvað hjá þeim sem njóta launaskriðs umfram umsamdar hækkanir.

ASÍ hefur einnig haldið því fram, t.d. í þeirri skýrslu sem ég nefndi, að það sé ekki dýrt að hækka skattleysismörkin eða láta þau fylgja laununum. Reyndar segir í skýrslunni að það kosti ekki neitt.

,,Ef skattleysismörkin fylgja launaþróun þá aukast tekjur ríkissjóðs jafnt og tekjur í landinu,`` segir orðrétt í skýrslunni. Síðan segir:

,,Það er hins vegar mjög freistandi að láta skattleysismörk ekki fylgja launaþróun því að þá hækka skatttekjur ríkissjóðs mun meira en tekjur almennings.``

Ég ætla aðeins, herra forseti, að vitna nánar í þessa skýrslu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef öll laun hækka um 10% en skattleysismörk og persónuafsláttur haldast óbreytt þá aukast samanlagðar skatttekjur sveitarfélaga og ríkissjóðs um 17,6%. Útsvarstekjur sveitarfélaga hækka um 10% en tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti um rúmlega 20%. Aðgerðin skilar því u.þ.b. 12 milljörðum til hins opinbera og meðalskattbyrði launafólks hefur með því aukist.``

Síðan segir:

,,Ef öll laun hækka um 10% og skattleysismörk og persónuafsláttur hækka einnig um 10% þá aukast tekjur ríkissjóðs um 10%. Aðgerðin skilar tæplega 7 milljörðum til hins opinbera og meðalskattbyrði launafólks helst óbreytt. Þó tekjuauki ríkisins verði ekki eins mikill og í fyrra dæminu með óbreytt skattleysismörk þá hefur ríkið samt sem áður töluvert svigrúm til góðra hluta og nóg til þess að hækka laun og rekstrarkostnað í takt við almenna þróun í landinu.``

Í skýrslunni er síðan vakin athygli á því að þegar skattleysismörkin hafa dregist langt aftur úr launaþróun í mjög langan tíma og tekjum ríkissjóðs verið ráðstafað í önnur verkefni sé mjög dýrt að snúa dæminu við þannig að skattleysismörkin fylgi t.d. lágmarkslaunum. Þeir segja að það kosti 780 milljónir að hækka skattleysismörkin um 1.000 kr. miðað við óbreyttar tekjur í þjóðfélaginu. Það er auðvitað gífurleg fjárhæð. Ef skattleysismörkin hækka um 1.000 kr. þá hækka ráðstöfunartekjur einstaklings um 385 kr. á mánuði og hjóna um 690--767 kr. á mánuði. Þeir benda á að í haust hafi komið fram kröfur um að skattleysismörk skyldu hækkuð í takt við þróun launavísitölu síðustu ára upp í 85 þús. kr. á mánuði, miðað við rúmar 63 þús. nú. Við þetta mundu skattleysismörkin hækka um 21.600 kr. rúmar og ráðstöfunartekjur einstaklinga hækka um 8 þús. kr. á mánuði miðað við óbreytta skattprósentu.

Síðan segja þeir:

,,Ætla má að slík aðgerð kosti um 15--17 milljarða og þyrfti ríkissjóður að ná inn auknum tekjum á móti eða skera niður útgjöld sem því næmi.``

Miðað við þetta sjáum hve gífurlega háar fjárhæðir menn hafa haft af launafólki og það af lægst launaða fólkinu. Ég bendi á að 1988 héldust skattleysismörkin og launaþróunin alveg í hendur en þetta bil sem ég nefndi hér kostar gífurlega mikið að leiðrétta að fullu.

Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er minna sýnilegt þegar skattleysismörk eru látin dragast aftur úr launaþróun, en þegar skattprósentan er hækkuð. Í báðum tilvikum er þó verið að hækka skatta. Það er mjög mikilvægt að halda þessari staðreynd til haga í umræðunni. Ef skattleysismörk fylgja ekki launaþróun þá er verið að auka tekjumun í þjóðfélaginu.

Það kostar ekkert að láta skattleysismörkin fylgja launahækkunum. Hins vegar aukast tekjur ríkissjóðs verulega ef þau eru ekki látin fylgja launahækkunum. 1% tekjuaukning skilar 1,8% í auknum tekjum ef öllum viðmiðunarupphæðum er haldið óbreyttum.

Það er því freistandi fyrir ríkisstjórnir að láta skattleysismörk ekki halda í við launaþróun í landinu. Þau hafa verið látin síga meðvitað og oft verið notuð til að fjármagna aðrar skattbreytingar. Nýjasta dæmið er frá 1997 þegar skattleysismörkin voru ekki hækkuð til þess að fjármagna skattalækkunina.``

Það er ástæða til að rifja þetta upp núna í tengslum við þetta frv. og það sem hefur náðst fram til þess að leiðrétta aðeins kúrsinn í tengslum við nýgerða kjarasamninga.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að hafa mikið fleiri orð um þetta en vil þó nefna að í umsögn fjmrn. er talað um að ríkissjóður verði af um 900 millj. kr. tekjum á árinu 2000, þ.e. 1.200 milljónum miðað við heilt ár. Það er þá einungis vegna þess að fjárlögin miðuðu aðeins við 2,5% hækkun skattleysismarka en ekki hækkun skattleysismarka í samræmi við laun. Ríkissjóður er því raunverulega búinn að taka inn til sín með fjárlögunum það sem þeir eru núna að skila aftur með því samkomulagi sem náðist við verkalýðshreyfinguna.

[15:00]

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Ég á sæti í efh.- og viðskn. sem fær þetta frv. til umfjöllunar. Ég mun vitaskuld gera mitt til að kappkosta að málið fái fljóta og góða afgreiðslu í nefndinni. Ég treysti auðvitað því sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. fyrir tveimur vikum eða svo að sá dráttur sem orðið hefur á að afgreiða þetta mál, hæstv. fjmrh. hefur vissulega skýrt ástæðuna fyrir því, bitni ekki á þeim sem njóta góðs af þessu frv. með breytingu á persónuafslætti og skattleysismörkum. Ég treysti því að þeim sem fá fyrirframgreidd laun verði bætt það upp um næstu mánaðamót en af eðli máls leiðir að þetta hefur engin áhrif á þá sem fá eftirágreidd laun. Yfir það verður farið í efh.- og viðskn. og læt ég máli mínu lokið.