Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:00:47 (5886)

2000-04-04 16:00:47# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Til umræðu er þáltill. um hvíldarheimili eða skammtímavistun fyrir geðsjúk börn með alvarlegar hegðunartruflanir og hún er flutt af þremur þingmönnum vinstri grænna, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Þuríði Backman.

Í grg. með þáltill. segir, með leyfi forseta:

,,Nú munu vera hér á landi um 20 börn sem greinst hafa með alvarlega geðsjúkdóma en sjúkdómstilvik þar sem um er að ræða geðröskun eða miklar hegðunartruflanir eru mun fleiri.``

Flm. leggja til að sett verði á laggirnar hvíldarheimili eða skammtímavistun fyrir þennan skilgreinda hóp barna með alvarlegar hegðunartruflanir til að létta á fjölskyldum þessara barna. En í grg. kemur fram að langflest þeirra búa á heimilum sínum og eru í umsjá foreldra sinna allan sólarhringinn þrátt fyrir alvarleg veikindi og ástæða þess sé, með beinni tilvintun í grg., með leyfi forseta að: ,,úrræði heilbrigðiskerfisins fyrir geðveik börn eru af mjög skornum skammti.``

Nú er það svo að ég er ekki í nokkrum vafa um að flm. hafa greint réttilega þörf fjölskyldna alvarlega geðsjúkra barna fyrir að fá tímabundna hvíld vegna umönnunar barna sinna. Álag á foreldra við umönnun barns sem hefur við alvarlegan sjúkdóm eða fötlun að stríða er stöðugt, það er óumflýjanlegt og oft yfirþyrmandi og þurfa foreldrar og fjölskyldur fatlaðra og langveikra barna, hvort sem veikindin eru af líkamlegum eða andlegum toga, á miklum stuðningi að halda til að ráða við þetta stóra verkefni.

Í grg. með till. til þál. segir að úrræði heilbrigðiskerfisins fyrir geðsjúk börn séu af mjög skornum skammti. Áður en lengra er haldið langar mig að fjalla í nokkrum orðum um þessa tilvitnuðu fullyrðingu flm.

Nýlega fóru fram umræður í þinginu um málefni geðsjúkra barna í tilefni af fsp. hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur til hæstv. heilbrrh. um þetta efni. Mig langar til þess að rifja upp nokkur svör hæstv. heilbrrh. við þessum fsp. þingmannsins. Þar kom m.a. fram að mikil vinna og fjármagn hefur á undanförnum mánuðum og árum farið í að styrkja geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn. Ég ætla að nefna nokkur atriði úr svörum ráðherra.

Starfsemi barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, BUGL, hefur verið efld verulega og á síðustu tveimur árum einum saman hefur stöðugildum á deildinni fjölgað um 21. Nú eru stöðugildi á BUGL um 70 talsins sem sinna á hverjum tíma tólf börnum sem eru inniliggjandi auk tveggja í dagvistun, fyrir utan þjónustu við tugi barna og fjölskyldur þeirra á göngudeild geðdeildarinnar. Göngu- og dagdeildarþjónusta við geðsjúk börn hefur verið efld verulega og er það í samræmi við almenna þróun í geðheilbrigðisþjónustu og breyttar áherslur að gefa kost á auknum úrræðum við fleiri skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra með meðferð án innlagnar á stofnun.

Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á aukna samvinnu aðila í heilbrigðis- og félagsmálakerfinu sem koma að málefnum geðsjúkra barna með stofnun samstarfsráðs ráðuneytanna og aðila sem veita þessum börnum þjónustu í þessum kerfum.

Með opnun unglingageðdeildar á Vogi um síðustu áramót hefur verið komið til móts við þarfir ungmenna sem eru í vímuefnavanda.

Síðan vil ég líka nefna að sett hefur verið sérstök fjárveiting í að setja á laggirnar bráðamóttöku fyrir börn og unglinga með geðraskanir. Í undirbúningi er opnun deildar fyrir langtímameðferð fyrir unglinga á vegum BUGL. Í svörum hæstv. ráðherra kom einnig fram að nefnd á vegum fjögurra ráðuneyta hafi verið að störfum til að vinna að heildstæðri og samræmdri stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna og unglinga. Niðurstaða þessarar vinnu liggur nú fyrir og var stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna, þar með geðsjúkra barna, kynnt 13. mars sl.

Ég tel að enginn velkist í vafa um vilja hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnarinnar að styðja sem best við þjónustu við geðsjúk börn, það hefur ráðherra og ríkisstjórnin margoft sýnt í verki.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna sem var kynnt nýlega og ég nefndi hér á undan er staðfest að í undirbúningi er opnun deildar fyrir langtímameðferð unglinga á vegum BUGL svo og að geðheilbrigðisþjónustan að Stuðlum verði aukin með þjónustusamningi við barna- og unglingageðdeild Landsspítalans. Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna byggir á þekkingu færustu sérfræðinga á þessu sviði þar sem ráðgjafar nefndarinnar voru bæði sérfræðilegir fagaðilar og samtök foreldra langveikra barna, þ.e. Umhyggja, en foreldrar eru að sönnu sérfræðingar í veikindum barna sinna.

Með þeim úrræðum sem kynnt voru í málefnum geðsjúkra barna er komið verulega til móts við þá þörf sem er fyrir hendi um hvíldarinnlangnir fyrir þessi veiku börn þó stofnun sérstaks hvíldarheimilis sé ekki sérstaklega nefnt í þessu sambandi. Hvíldarinnlagnir, þar sem lögð er áhersla á endurhæfingu og hæfingu þessara barna, er sjálfsagður þáttur í þeirri þjónustu sem þarf að veita á deildum fyrir langveik geðsjúk börn og unglinga á sama hátt og hvíldarinnlögn fyrir aldraða er sjálfsagður þáttur í þjónustu við aldraða.

Í lögum um málefni fatlaðra er kveðið á um stuðning við fatlaða, hvort heldur sem fötlunin er af andlegum eða líkamlegum toga. Geðfatlaðir falla undir þessi lög en hins vegar er mér ekki alveg ljóst hvað greinir á milli í skilgreiningu á geðfötluðum annars vegar og geðsjúkum hins vegar sem er lögð til grundvallar ákvörðun um mismunandi rétt og þjónustu til þessara hópa. Það eru aðrir sem eru fróðari mér í þeim efnum.

Í IV. kafla núgildandi laga, sem kveður á um stoðþjónustu, segir að stoðþjónusta skuli m.a. miðuð við þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri aðstoð við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði, eins og segir í 4. tölul. 4. gr. laganna, með leyfi forseta.

Í IX. kafla laganna er sérstaklega kveðið á um málefni fatlaðra og fjölskyldna þeirra. Þar segir m.a. að fjölskyldur fatlaðra barna skuli eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefur. Einnig segir að foreldrar skuli eiga kosta á skammtímavistun fyrir fötluð börn sín þegar þörf krefur en skammtímavistun er ætluð fötluðum einstaklingum til tímabundinnar dvalar til hvíldar eða vegna erfiðra heimilisaðstæðna.

Þá er kveðið á um það í 23. gr. laganna að fötluðum börnum skuli gefast kostur á sumardvöl þegar þörf er á.

Í nýju frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem hæstv. félmrh. mælti fyrir fyrir nokkru, er steypt saman tveimur mikilvægum lögum, lögum um málefni fatlaðra og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar er tekinn af allur vafi um rétt langveikra barna, þar með talið geðsjúkra barna, og þeim tryggður sami réttur og fötluðum til sértækrar þjónsutu eins og til skammtímavistunar, stuðningsfjölskyldu og þjónustu í skólaleyfum.

Í grg. með þáltill., sem er til umfjöllunar, eru færð fyrir því rök að þau börn sem tillagan fjallar um þarfnist sérstakrar þjónustu vegna alvarleika sjúkdóms síns. Ég tek undir þau sjónarmiði og til að koma til móts við þennan rétt þeirra, sem allur vafi er tekinn af með nýju frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga að er þeirra, þarfnast sennilega sérstakra ráðstafana og úrræða og reynir þá sérstaklega á samvinnu heilbrigðiskerfisins og félagsmálakerfisins. Fjölskyldur barna og unglinga með alvarlegan geðsjúkdóm þurfa ekki síður en fjölskyldur annarra langveikra barna hvíld og stuðning til þess að geta ráðið við þær aðstæður sem skapast við svo alvarleg veikindi í fjölskyldunni. (Forseti hringir.)

Í seinni ræðu minni mun ég koma inn á aðra þætti.