Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:34:06 (5897)

2000-04-04 16:34:06# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vissulega mundu fjölskyldur geta notfært sér slík úrræði. Þær kalla eftir slíkum úrræðum því ástandið er að sliga þessar fjölskyldur. Ég vildi að hv. þm. hefði verið viðstaddur þegar við ræddum við foreldra þessara barna. Þeir eru að sligast undan álaginu og þurfa að fá skammtímavistun, hvíldarvistun fyrir þessi börn og þar er ekki verið að tala um geymslustaði. Auðvitað er verið að tala um að sinna þessum börnum vegna þess að það er ekki hægt að setja þau í pössun hjá ömmu og afa eða frændum og frænkum, það er ekki hægt.

Þess vegna verður að koma slíkum úrræðum á ef við ætlumst til að það fólk sem er með þessi börn hugsi um börnin sín áfram eins og gert er í dag. Það er eina leiðin til að þeir fái einhverja hvíld og geti sinnt öðrum börnum í fjölskyldunni og þeir geti lifað eðlilegu fjölskyldulífi þó ekki væri nema kannski tvo, þrjá daga í mánuði, því það getur þetta fólk ekki eins og ástandið er í dag.

Ég get ekki annað en brugðist við þegar ég heyri hv. þm. tala um að e.t.v. gætu einhverjar fjölskyldur nýtt sér úrræði sem þessi ef þau væri til staðar. Þetta er mjög brýnt mál og mikil þörf á slíkum úrræðum, því að það er ákall frá foreldrum þessara barna um að fá úrræði sem þessi.