Íslensk málnefnd

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:42:25 (5902)

2000-04-04 16:42:25# 125. lþ. 89.11 fundur 501. mál: #A Íslensk málnefnd# (tengsl við Háskóla Íslands, forstöðumaður) frv. 44/2000, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þegar ný háskólalög tóku gildi var út frá því gengið að háskólarektor réði alla starfsmenn við Háskóla Íslands. Þá lá einnig ljóst fyrir að skoða þyrfti ýmsar stofnanir sem störfuðu í tengslum við Háskóla Íslands með tilliti til hinnar nýju skipunar og taka afstöðu til álitamála sem kynnu að koma upp varðandi ráðningu starfsmanna. Þetta frv. er flutt vegna slíkra athugana en þar er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um Íslenska málnefnd er varða ráðningu forstöðumanns og rekstrargrundvöll stofnunarinnar.

Gert er ráð fyrir því að forstöðumaður verði skipaður af menntmrh. og til fimm ára í samræmi við þá meginreglu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að forstöðumenn skuli skipaðir til starfa af ráðherra. Þá er gert ráð fyrir að Íslensk málstöð verði sjálfstæð stofnun og ekki rekin í lögbundinni samvinnu við Háskóla Íslands. Frv. gerir ekki ráð fyrir að forstöðumaðurinn sé jafnframt prófessor í íslenskri málfræði í heimspekideild Háskóla Íslands og því er gert ráð fyrir samkvæmt frv. að starfsskyldur forstöðumannsins verði einvörðungu við Íslenska málstöð.

Frv. er ekki nema þrjár greinar og efnisatriði þess eru í 1. gr. á þann veg að Íslensk málnefnd sé málræktar- og málverndarstofnun og hún reki Íslenska málstöð. Í þeirri grein er tekið fram að ekki sé um samvinnuverkefni að ræða á milli Íslenskrar málnefndar og Háskóla Íslands að reka málstöðina. Þetta útilokar þó ekki að unnt verði að viðhalda starfstengslum Íslenskrar málstöðvar við háskólann eða einstakar háskólastofnanir á grundvelli sérstaks samkomulags ef þörf krefur, en minnt er á að háskólaráð Háskóla Íslands, heimspekideild Háskóla Íslands og Orðabók háskólans tilnefna fulltrúa sína í Íslenska málnefnd.

Í 2. gr., herra forseti, er lagt til að forstöðumaður verði skipaður af menntmrh., eins og áður sagði, á grundvelli laganna nr. 70/1996, og fellt niður það skilyrði að forstöðumaðurinn sé jafnframt prófessor í íslenskri málfræði í heimspekideild Háskóla Íslands, en gerðar verði þær hæfiskröfur að forstöðumaður hafi lokið meistaraprófi eða jafngildu prófi í íslenskri málfræði. Þetta er efni frv., herra forseti, og það hefur verið reifað og rætt við Háskóla Íslands og Íslenska málnefnd. Þessir aðilar hafa báðir lýst sig sammála þeim breytingum sem lagðar eru til með frv. og legg ég til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.