Almannatryggingar

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:57:31 (5905)

2000-04-04 16:57:31# 125. lþ. 89.14 fundur 266. mál: #A almannatryggingar# (tannlækningar) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessu frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar og vil aðeins ítreka nokkur atriði og fara yfir kannski ekki nýja þætti en draga annað fram.

Það að breyta aldursmörkunum úr 17 upp í 18 er hluti af því að samræma þau aldursmörk við sjálfræðisaldur. Þetta er að gerast á mörgum sviðum þar sem aldursmörk koma fram og það er eðlilegt að hafa þessi mörk sem samræmdust. Börn og unglingar eru það til einhvers ákveðins aldurs og það er ekki gott að það sé sums staðar 16, 17 eða 18 ára sem viðmiðunarmörkin eru. Átján ára verður fólk sjálfráða og það er m.a. ástæðan fyrir því að við leggjum til að mörkin séu við 18 ára aldur.

Það að þátttökukostnaður 18 ára og yngri sé 90% tekur mið af þeim reglum sem í gildi eru í dag. Það er ekki fast verðlag hjá tannlæknum. Þar er frjáls álagning og þessi 10% sem út af standa eru þá í dag hugsuð til þess að einstaklingar sem hafa möguleika á að velja á milli tannlækna, geti gert það og að þessi 10% kostnaður sem á einstaklingana fellur nægi til þess að fólk velji sér tannlækna, a.m.k. að hluta til vegna kostnaðarvitundar eins og sagt er.

Tannheilsa okkar Íslendinga hefur mjög batnað, í fyrsta lagi með breyttri og bættri tannhirðu og vitund foreldra um mikilvægi þess að hirða tennur barna sinna alveg frá blautu barnsbeini og fá þeir góðar leiðbeiningar til þess í dag. Það er allt önnur tannhirða núna en tíðkaðist fyrir 10--20 árum síðan, hvað þá þar áður. Tannhreinsivörur verða stöðugt betri og það ætti að hjálpa til þó að sumir munu nú kannski segja að helmingurinn af því væri bara markaðssetning. En eftir sem áður finnast nú ýmis ráð til tannhirðu sem ekki voru til áður.

[17:00]

Þetta er einn þátturinn en breytt mataræði hefur líka hjálpað til. En matarvenjur og siðir hafa einnig hjálpað til við að skemma tennur. Sífellt meiri gosdrykkja Íslendinga, þá sérstaklega barna og unglinga, hefur mjög slæm áhrif á tannheilsuna og mun örugglega skila sér í verri tannheilsu þeirra þegar þeir komast á fullorðinsár.

Reykingar spila líka inn í heilbrigði tanna og tannholds. Vonandi gengur okkur vel að draga úr reykingum þannig að dragi úr tannholdsbólgu og áhrifum reykinga á tennur. Ég nefni þetta hér vegna þess að ástand tannholdsins hefur mikið að segja þegar kemur á fullorðinsár. Maður hefur áhuga á því að halda upprunalegum tönnum sínum til æviloka og það er orðið algengt í dag að fólk nái að halda þeim allt sitt líf. Tennur eru sjaldnast rifnar úr fólki og komið fyrir heilgómum eins og mjög algengt var hér áður fyrr. Það hefur því mikið að segja að styrkja fullorðið fólk, elli- og örorkuþega, til að halda áfram að sinna tannheilsu sinni, leita til tannlæknis og halda tönnunum í góðu standi. Elli- og örorkulífeyrisþegar þurfa að fá þá þjónustu sem hægt er að veita, til að setja niður tannparta og styrkja eða laga tannhold eftir sem þarf í stað þess að rífa allar tennurnar úr.

Því miður eru margir tekjulitlir elli- og örorkulífeyrisþegar til í dag sem telja sig ekki hafa efni á því að fara til tannlæknis og viðhalda tannheilsu. Í þessu frv. er lagt til að þátttaka ríkisins í kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega verði 100% fyrir almenna tannlæknaþjónustu en ekki gullfyllingar. Þessu vildi ég bæta við og benda á að það verður mun algengara að fullorðið fólk, elli- og örorkulífeyrisþegar, haldi tönnum sínum fram á efri ár og allt til dauðadags. Þess vegna tel ég ástæðu til að styrkja fólk á þessum aldri til að nýta sér tannlæknaþjónustu eins og það gerði þegar það var yngra.