Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 17:04:02 (5906)

2000-04-04 17:04:02# 125. lþ. 89.15 fundur 352. mál: #A rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Aukinn hraði og umferð við þjóðvegi landsins hefur kallað á breytt viðhorf til lausagöngu búfjár. Lausaganga búfjár á vegum er víðtækt vandamál hér á landi sem haft hefur í för með sér slys og slysahættu og ógnað öryggi vegfarenda. Mikið álag er á ökumönnum þegar búfé er á eða við vegi því að það er aldrei að vita hvenær skepnurnar hlaupa fyrir farartækin. Þetta á sérstaklega við um sauðfé og er þá fyrri hluti sumars verstur. Því mæli ég hér fyrir till. til þál. um rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys, sem er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að við nýframkvæmdir samkvæmt vegáætlun verði gert ráð fyrir rásum fyrir búfénað undir vegi þar sem girt er meðfram vegum en bithagar beggja vegna.``

Í grg. kemur fram að árlega berist fréttir af alvarlegum umferðarslysum sem orðið hafa vegna þess að búfé gengur laust á vegum úti. Þar er einnig tafla sem sýnir slysatíðni af þeim sökum á árunum 1994--1998 samkvæmt nýjum tölum frá Umferðarráði. Á árinu 1994 urðu fjögur slys. Í þeim slysum voru fjórir lítið slasaðir en óhöpp án slysa voru 59. Þessar tölur gefa nokkra hugmynd um þann fjölda slysa og óhöppa af þessum sökum á ári hverju. Árið 1997 urðu slysin fimm. Þar af var einn mikið slasaður, fjórir lítið slasaðir og óhöpp án slysa 117 sem vitað var um en það er ekki tilkynnt um öll slys. Þessi fimm ár urðu slysin 20 alls. Á þessu tímabili varð sem betur fer ekkert dauðaslys, mikið slasaðir voru þrír, lítið slasaðir 26 en óhöppin alls 356. Eins og hér kemur fram hefur fjöldi umferðaróhappa af völdum lausagöngu búfjár nærri því tvöfaldast á fjögurra ára bili. Eins og ég sagði áðan hafa 29 manns slasast í þessum umferðaróhöppum.

Reynsla af þessu fyrirkomulagi er fyrir hendi og nefni ég bara einn stað en þeir eru sem betur fer orðnir nokkrir núna þar sem framsýnir bændur hafa fundið heppilega lausn á hættunni sem stafar af lausagöngu búfjár. Sem dæmi má nefna bæinn Ásbrandsstaði í Vopnafirði en þegar vegur þar var endurbyggður og lagt á hann bundið slitlag árið 1985 lét bóndinn þar leggja rörhólka undir veginn til þess að hægt væri að hleypa skepnum þar um án þess að þeim, eða akandi vegfarendum, stafaði hætta af. Fyrirkomulag þetta hefur reynst einstaklega vel.

Með þessari þáltill. er skýringamynd. Bóndinn á Ásbrandsstöðum lýsti því þannig að hann þurfti einu sinni að teyma kýrnar í gegnum hólkinn en kindurnar rásuðu strax þar í gegn án þess að það þyrfti nokkuð að hafa fyrir því að reka þær.

Þegar vegir eru lagðir er landeiganda skylt að láta af hendi land sem þarf undir vegi eða til breytinga, t.d. breikkunar og viðhalds vega. Um þessar vegarlagningar næst oftast sátt á milli Vegargerðar og landeigenda en eins og fram kemur í lögunum er ekki auðvelt fyrir landeigandann að neita vegarlagningu þó að það valdi verulegu óhagræði hvað varðar aðgengi búpenings að beitilandi eða skemmdir á vel ræktuðum túnum. Því er mjög líklegt að það verði til bóta að fá svona rásir undir vegi. Raunar finnst þeim það nauðsynlegt sem við þessar aðstæður búa. Best væri að svona rásir gætu verið vélgengar þegar tún eru við vegina en auðvitað væri það meiri aðgerð en hér er verið að mæla fyrir.

Veghaldara er skylt að girða með vegum þar sem farið er um afgirt land og það er vel. En það er jafnbrýnt að sjálfsagt verði að lagðar verði rásir í gegnum vegina þar sem þannig hagar til eins og hér hefur verið lýst. Fyrir utan þennan stað á Vopnafirði er hægt að nefna Ljósavatnshrepp en þar hefur slíkum rásum verið komið fyrir og hafa þær dugað vel.

Fyrir bændur sem búa við þær aðstæður að tún eða beitilönd séu beggja vegna þjóðvegar, sem er býsna víða, skapast oft hættuástand bæði vor og haust þegar sauðfé er rekið á milli beitihólfa. Það er nefnilega enginn hægðarleikur að kenna sauðkindinni umferðarreglurnar og líklega ógerningur, nema e.t.v. einstakri spakri forustukind tækist það.

Ég vil geta þess að nefnd sem fékk vinnuheitið vegasvæðanefnd skilaði áfangaskýrslu í janúar 1999, en það var hæstv. landbrh. sem skipaði nefndina. Nefndinni var falið að fjalla um leiðir til að halda búfé frá helstu þjóðvegum landsins. Hún fór yfir þróun mála frá árinu 1991--1993 og var ætlað að skilgreina helstu áhættusvæði og gera tillögur um úrbætur miðað við stöðu mála eins og þau voru þegar hún skilaði skýrslunni. Henni var einnig ætlað að gera tillögur um lagabreytingar ef þess gerðist þörf.

Ég ætla að nefna helstu niðurstöður nefndarinnar í skýrslunni.

Nefndin var sammála um að allsherjarbann við lausagöngu búfjár í landinu væri óraunhæft og slík tillaga mundi einungis drepa málinu enn einu sinni á dreif. Nefndin var einnig sammála um að árangursríkasta leiðin væri að girða af fjölförnustu og hættulegustu vegi með veggirðingum, þ.e. girðingum sem beinlínis er ætlað að koma í veg fyrir að búfé eigi aðgang að þeim. Sömuleiðis var nefndinni ljóst að hvorki verður hægt né heldur æskilegt að girða alla vegi landsins því í þessum málum þarf að fara bil beggja.

Varðandi umferðaróhöpp kemur fram í skýrslunni að samkvæmt lögregluskýrslum og upplýsingum frá Umferðarráði um fjölda óhappa og umferðarslysa á árunum 1988--1997 þar sem ekið var á dýr á vegi, komi fram að á þessu tíu ára tímabili hafi orðið 40 slys á mönnum. Þar af létust tveir. Tíu slösuðust alvarlega og 40 urðu fyrir minni meiðslum. Eignatjónsóhöpp urðu alls 437. Óhætt er að fullyrða að fjöldi umferðaróhappa vegna árekstra ökutækja og búfjár sé mun meiri en fram kemur í upplýsingum Umferðarráðs þar sem einungis hluti þeirra er tilkynntur lögreglu. Flest þessara umferðaróhappa verða við árekstra ökutækja og sauðfjár.

[17:15]

Hrossum landsmanna hefur fjölgað mikið á síðustu árum og það hefur leitt til aukinnar slysatíðni. Staðfestar skýrslur sýna að alvarlegustu slysin hafa orðið við árekstra ökutækja og hrossa. Í sumum tilvikum er um að ræða hross í rekstri eða menn á hestum. Tiltölulega fá slys hafa orðið vegna árekstra ökutækja og nautgripa enda eru þeir yfirleitt í vörslu allt árið. Ætla má að alvarlegustu slysin séu bundin við afmarkaða staði í þjóðvegakerfinu. Sama gildir um tíðni slysa, þ.e. að líkur eru á að flest slysin verði á tiltölulega afmörkuðum stöðum í vegakerfinu.

Umferðaróhöpp sem verða við árekstra ökutækja og búfjár hafa í för með sér miklar bótakröfur en í flestum tilvikum leiða hlutlægar bótareglur umferðarlaga til þess að bifreiðaeigendur eru gerðir ábyrgir fyrir tjóni. Ábyrgðartryggingar ökutækja greiða bætur fyrir búfé en eigendur bifreiða missa svokallaðan bónusrétt hjá tryggingafélögum. Ekki eru til upplýsingar um kostnað bifreiðaeigenda vegna þessara tjóna en ætla má að hann nemi tugum milljóna árlega samkvæmt upplýsingum frá VÍS.

Varðandi girðingar er almenna reglan með vegum sú að Vegagerðinni er skylt að girða með vegi þegar hann er lagður um ræktað land og girt heimalönd. Markmið þeirra hefur fyrst og fremst verið að loka viðkomandi löndum en ekki friða vegi fyrir búfé. Gera má ráð fyrir að þessar girðingabætur Vegagerðarinnar muni aukast.

Eins og segir í áfangaskýrslunni, með leyfi forseta:

,,Árangur þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í því skyni að stemma stigu við lausagöngu búfjár hefur ekki þótt vera sem skyldi og eru til þess margvíslegar ástæður sem ekki er unnt að telja með tæmandi hætti. Aðalástæður þess eru þó að aðgerðir hafa ekki verið nægilega samræmdar og markvissar auk þess sem auknar girðingaframkvæmdir krefjast aukinna fjárveitinga. Þá má geta þess að sum sveitarfélög og einstaklingar hafa ekki tekið þessi mál nógu föstum tökum. Í seinni tíð hefur samt hluta fjárveitinga, sem ætlaðar eru til umferðaröryggisaðgerða á þjóðvegum, verið ráðstafað til að reisa girðingar með vegum þar sem helst hefur þótt þörf til að auka öryggi umferðar.``

Í framtíðinni verður örugglega meira um að girt sé beggja vegna vega. Það mundi örugglega draga úr deilum á milli Vegagerðarinnar og bænda og auðvelda lagningu vega eða finna vegstæði ef þessi ráðstöfun yrði gerð samhliða því að leggja nýja vegi eða endurbæta og girða meðfram vegum.

Töluverð ásókn hefur verið í að fá svona ræsi en Vegagerðin hefur ekki talið að hún gæti orðið við öllum þeim óskum þar sem hún hefur ekki fjárveitingar til þess. Þess má geta að hólkur eins og ég nefndi, hólkurinn sjálfur undir veginn við Ásbrandsstaði kostaði um 300 þús. kr. þegar hann var lagður. Ég skal ekki leggja neinn dóm á hvort það er dýr hólkur eða ekki en öryggi vegfarenda og þægindi ábúenda eru það mikil við svona framkvæmdir og bætur að ég legg til að samgn. athugi hvernig koma megi þessu inn í vegalögin.