Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 17:19:33 (5907)

2000-04-04 17:19:33# 125. lþ. 89.15 fundur 352. mál: #A rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um rásir fyrir búfé til að koma í veg fyrir slys er afar mikilvægt innlegg í þá áætlun og það starf sem unnið er að, að tryggja öryggi á þjóðvegum landsins.

Markvisst er unnið að því að koma upp girðingum meðfram vegum þar sem umferð er mest til að koma í veg fyrir að búfé, stórgripir og sauðfé, komist inn á vegina og geti valdið þar slysum og truflun á umferð. Afar mikilvægt er að tryggja umferðina eins og nokkur kostur er á þessu sviði. Til að svo megi verða þurfa jafnframt að vera til góðar lausnir til að umferð um landið á milli vega og milli svæða og milli túna og milli beitarhólfa geti verið sem greiðust. Þá er mikilvægt að einmitt sá valkostur komi inn sem hv. þm. Þuríður Backman bendir hér á. Ég hvet til þess að við hönnun mannvirkja í vegagerð, hönnun nýrra vega, og jafnframt líka við endurbætur á eldri vegum, sé þetta tekið inn með fullum þunga þannig að öryggi á vegum aukist en umferð og nýting á landi meðfram þeim verði sem hagkvæmust og öruggust.

Herra forseti. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt mál fyrir öryggi umferðar vítt og breitt um landið.