Viðbrögð við vandamálum sem tengjast spilafíkn

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 13:45:45 (5916)

2000-04-05 13:45:45# 125. lþ. 91.1 fundur 445. mál: #A viðbrögð við vandamálum sem tengjast spilafíkn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Á yfirstandandi þingi hef ég ásamt þingmönnum úr öllum flokkum, sem eiga sæti á Alþingi, flutt frv. sem gerir ráð fyrir banni við spilakössum. Þar er vísað bæði til spilakassa sem reknir eru á vegum Háskóla Íslands og Íslenskra söfnunarkassa en aðild að þeim eiga Rauði kross Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ.

Þetta er þverpólitískt mál. Að því standa fulltrúar allra stjórnmálaflokka og allir þeir fulltrúar sem hér eiga hlut að máli stóðu einnig að tillögu þess efnis að þeim stofnunum, þeim þjóðþrifastofnunum sem njóta arðsins af spilakössunum, verði fundnir aðrir tekjumöguleikar. Við erum ekki á eitt sátt um það hvernig að því skuli staðið enda gengur tillagan út á að kanna hvernig slíkt getur orðið. Hér er um talsverða fjármuni að ræða en samkvæmt upplýsingum hæstv. dómsmrh. við fyrirspurn sem ég bar fram fyrr á yfirstandandi þingi kom fram að að frádregnum vinningum og kostnaði höfðu Íslenskir söfnunarkassar til ráðstöfunar á árinu 1998 834 millj. og Happdrætti Háskóla Íslands 235 millj. kr. Hér er vissulega um umtalsverðar fjárhæðir að ræða.

Vandinn sem þetta veldur í samfélaginu er hins vegar miklu stærri en nemur þessum upphæðum enda ekki alltaf mældur á slíka mælikvarða. Komið hefur fram að á meðferðarstöðinni á Vogi voru árið 1998 11% af innlögðum einstaklingum það ár haldnir sjúklegri spilafíkn. Samkvæmt upplýsingum frá læknum á Vogi er ekki búið að taka saman tölur fyrir síðari ár en á þessu ári greindist hópurinn þannig í sundur: Karlar voru 165 en konur 19. Meðalaldur hópsins var 33 ár. 74 þessara spilafíkla voru 25 ára og yngri. Spilafíklar 20 ára og yngri voru 45, sá yngsti var 15 ára, sá elsti var 74 ára. Þetta er brotabrot af þeim fjölda sem haldnir eru þessari fíkn.

Nú er þeirri spurningu beint til hæstv. dómsmrh.: Eru áform af hálfu stjórnvalda um að bregðast við vandamálum sem tengjast spilafíkn?