Heimsóknir útlendinga

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:02:10 (5922)

2000-04-05 14:02:10# 125. lþ. 91.2 fundur 508. mál: #A heimsóknir útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:02]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. fyrirspyrjanda vil ég segja að það er alveg skýrt að í lögunum um eftirlit með útlendingum frá 1965 segir í 10. gr. að meina beri útlendingi landgöngu af nokkrum ástæðum og meðal þeirra er nefnt að slíkt eigi við ef ætla megi að viðkomandi hafi ekki nægileg fjárráð sér til framfærslu hér á landi. Þessi krafa er ekki gerð að ástæðulausu. Löng reynsla þeirra sem fylgjast með komum og dvöl útlendinga til landsins sýnir að meðal þeirra eru ávallt einhverjir úr þeim stóra hópi fólks sem kemur frá örbirgðarríkjum jarðar og eru að leita sér að betri bústað og krafan um nægileg fjárráð er sett fram til þess að forðast straum útlendinga til landsins sem hér mundu e.t.v. lenda á vonarvöl. Slíkar reglur gilda ekki bara hér. Þær gilda einnig í nágrannaríkjum okkar. Á þetta legg ég áherslu.

Það er á grundvelli lagaákvæðisins að Útlendingaeftirlitið hefur gert þá kröfu til þeirra sem óska dvalarleyfis að þeir sýni fram á getu sína til þess að framfleyta sér þann tíma sem þeir hyggjast dvelja hér. Þetta geta þeir gert með því að framvísa gögnum um að þeir séu að fara í vinnu, að þeir njóti tekna af eignum, eigi reiðufé eða fé á bankareikningum einhvers staðar o.s.frv. Þetta er gert með viðtölum við viðkomandi einstaklinga. Þar sem starfsliði Útlendingaeftirlitsins þótti óþægilegt að hafa ekki fastsettar viðmiðunarupphæðir varðandi framfærsluna voru þær reglur settar sem svo mjög hefur verið fjallað um í fjölmiðlum en þar var tekið mið af framfærslufjárhæðum hjá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Þetta á almennt við um alla þá útlendinga sem banka upp á hjá Útlendingaeftirlitinu og óska dvalarleyfis fyrir sjálfa sig en sérreglur gilda um borgara á Evrópska efnahagssvæðinu eins og kunnugt er.

Þá kem ég að spurningunni, en hún fjallar um það tilvik þegar erlendum ættingjum og erlendu tengdafólki íslenskra ríkisborgara er boðið hingað til dvalar og gestgjafarnir sækja um dvalarleyfi fyrir þá. Þar gildir sú regla að börnum eða foreldrum er veitt slíkt dvalarleyfi en gerð er sú krafa að gestgjafarnir geri grein fyrir því hvernig gestirnir munu framfleyta sér meðan á dvölinni stendur. Ef gestgjafarnir ætla að sjá um uppihaldið er þeim gert að framvísa gögnum um að þeir séu til þess færir. Slík gögn eru t.d. upplýsingar um atvinnu og tekjur gestgjafans, um eignir hans o.s.frv. Ef framfærslugeta gestgjafans liggur ekki í augum uppi samkvæmt þeim upplýsingum sem hann framvísar hefur samkvæmt núgildandi reglum verið krafist fjártryggingar samkvæmt viðmiðunarreglum fyrir framfærslu gestanna, en í algerum neyðartilvikum og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Útlendingaeftirlitinu hefur þetta raunar aðeins gerst einu sinni. Ég endurtek: Aðeins einu sinni.

Varðandi aðra ættingja en börn og foreldra gilda um þá almennar reglur fyrir veitingu dvalarleyfis en ekki neinar aðrar sérreglur. Þetta eru reglurnar eins og þær hafa lengi verið en eina breytingin sem gerð hefur verið upp á síðkastið eru reglurnar um viðmiðunarfjárhæðir í framfærslunni og krafa um tryggingu ef gestgjöfum tekst ekki að sýna fram á framfærslugetu sína varðandi foreldra og börn sem þeir hyggjast bjóða til sín.

Það er spurt um rökin fyrir þessu. Því er til að svara að við búum við og framkvæmum löggjöf sem setur hömlur á innflutning fólks til landsins. Um það atriði má sjálfsagt deila en löggjöfin gildir. Heimsóknir erlendra ættingja til íslenskra ríkisborgara eru sjaldnast neitt vandamál og yfirleitt þarfnast þeir ekki dvalarleyfis heldur koma hingað sem venjulegir ferðamenn og stansa ekki við í lengri tíma. Það er hins vegar einfaldlega ein af staðreyndum lífsins að fólk sem býr í ýmsum fátækum og vanþróuðum ríkjum jarðar vill mjög gjarnan setjast að í velferðarríkjum og reynslan kennir okkur að ef við á annað borð viljum hafa stjórn á innflutningi fólks til landsins þarf sérstaklega að hafa aðgát við veitingu dvalarleyfis til fólks frá ríkjum þar sem almenningur býr við örbirgð eða stöðuga styrjaldarvá. Nágrannaríki okkar hafa að undanförnu verið að herða reglur um dvalarleyfi ættingja frá vanþróuðum ríkjum, t.d. í Danmörku og Svíþjóð fá gestgjafar sem hafa dvalarleyfi en ekki ríkisfang alls ekki að taka á móti foreldrum sínum né börnum en hafi þeir fengið ríkisfang þurfa þeir að sanna fyrir útlendingaeftirlitinu framfærslugetu sína gagnvart gestunum.

Í Noregi eru fjölskylduheimsóknir leyfðar en sú regla gildir að viðkomandi gestir verða að sýna fram á að uppihald þeirra sé tryggt meðan þeir dvelja í landinu.