Heimsóknir útlendinga

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:09:14 (5924)

2000-04-05 14:09:14# 125. lþ. 91.2 fundur 508. mál: #A heimsóknir útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þykir málflutningur hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur í þessu máli að ýmsu leyti sérkennilegur og hún er jafnvel að leggja til að ryðja eigi úr vegi möguleikum íslenskra stjórnvalda að stjórna straumi innflytjenda til landsins. Stendur vilji hv. fyrirspyrjanda virkilega til þess að Ísland marki sér sérstöðu meðal vestrænna þjóða sem allar með tölu hafa stranga löggjöf í þessum málefnum?

Kjarni málsins er sá að íslensk löggjöf er í þessum efnum síst strangari eða meira íþyngjandi en almennt gerist meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við. Við rekum ekki einangrunarstefnu eins og öllum landsmönnum er kunnugt. Innflytjendum hér á landi hefur fjölgað mjög og þeir hafa að sönnu auðgað það líf sem er hér með menningu sinni og þeim straumum og áhrifum sem þeir bera með sér. Ég vara hins vegar við óábyrgum málflutningi sem felur í sér að Ísland hugsanlega eitt vestrænna ríkja opni allar gáttir. Hins vegar má bæta við að það er tími til kominn að endurskoða lög um útlendinga og vonast ég til að það verði gert sem fyrst.