Heimsóknir útlendinga

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:14:18 (5928)

2000-04-05 14:14:18# 125. lþ. 91.2 fundur 508. mál: #A heimsóknir útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég hef því miður orðið fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Ég hefði talið að ráðherra vildi við þessa umræðu lýsa því yfir að það væri löngu tímabært að endurskoða þau úreltu lög frá 1965, eins og kom reyndar fram hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur þar sem hún las úr nál. frá allshn.

Ég er að tala um gesti til Íslendinga, til fólks sem býr hér. Það er mjög afmarkað mál sem ég er að taka hér fyrir og að vera að tala um einhvern straum útlendinga frá vanþróuðum löndum. Hvers konar umræða er þetta eiginlega? Fólki er nánast gert ókleift að fá sína nánustu hingað með úreltum og fáránlegum reglum. Það er verið að hnýsast í einkahagi fólks með því að krefjast þess að það leggi fram skattskýrslur og launaseðla. Það er verið að mismuna ríkum og fátækum við að fá sína nánustu hingað með því að krefjast hárra fjárhæða inn á bankareikninga fyrir fram. Menn hafa auðvitað verið að fara fram hjá þessum reglum vegna þess að þetta eru fáránlegar reglur. Menn hafa verið að fá lán í nokkra daga til að leggja inn á bankareikning, sýna Útlendingaeftirlitinu og síðan er lánið borgað til baka. Við eigum að leiðrétta slíkar reglur og hætta þessari vitleysu. Þetta verður bara til þess að menn fara í kringum þær. Það er líka niðurlægjandi fyrir fólk sem ætlar að bjóða sínum nánustu hingað að þurfa að búa við svona fáránlegar reglur eins og gilda í þessum efnum.

Ég vona að þegar hæstv. ráðherra kemur upp í seinna sinn muni hann lýsa því yfir að full ástæða sé til að breyta þessum reglum því að það er full ástæða til þess og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra sé ekki á sama máli, því að það er ekki boðlegt að búa fólki þær aðstæður sem það býr við hvað það varðar að fá sína nánustu hingað.