Móttaka flóttamanna

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:33:32 (5937)

2000-04-05 14:33:32# 125. lþ. 91.4 fundur 497. mál: #A móttaka flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Á liðnum árum hafa Íslendingar tekið sig á svo um munar í móttöku flóttamanna. Það framtak er ekki síst hæstv. félmrh. að þakka.

Fyrir nokkru lagði ég fram fyrirspurn á hinu háa Alþingi um móttöku flóttamanna á yfirstandandi ári og hvort ákvörðun hefði verið tekin um hvar þeir skyldu eyða fyrsta ári sínu á Íslandi.

Frá því að fyrirspurnin var lögð fram hefur félmrh. tilkynnt að næsti hópur flóttamanna sem hingað kemur á svonefndum flóttamannakvóta Sameinuðu þjóðanna skuli setjast að á Siglufirði. Mig langar til að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. félmrh. um ástæðurnar sem liggja að baki því að Siglufjörður varð fyrir valinu. Að auki væri fróðlegt að heyra hvort sveitarfélög þurfa að uppfylla einhver sérstök skilyrði hvað varðar t.d. stærð eða félagsþjónustu til að taka á móti flóttamönnum. Styðst félmrh. við einhverjar vinnureglur í því efni?

Herra forseti. Vart þarf að taka fram að flóttamannaaðstoð verður að sníða að þörfum þiggjendanna, þ.e. þess fólks sem íslensk stjórnvöld ákveða að veita skjól hér á landi. Í því efni er hollt fyrir okkur að hafa í huga að fólkið sem við munum bjóða velkomið hingað í sumar hefur verið á flótta í fimm til tíu ár. Búast má við því að flestir þeirra komi frá Krajina-héraði og hafi búið árum saman við mjög þröngan kost í flóttamannabúum. Það gefur augaleið að flóttafólk sem búið hefur við viðlíka aðstæður þarf á góðri þjónustu og ekki síst sálgæslu að halda þegar það tekur fyrstu skrefin hér á landi.

Herra forseti. Með dyggri aðstoð Rauða kross Íslands hefur grettistaki verið lyft í móttöku flóttamanna á síðustu árum hér á landi. Það er von mín að sú þróun haldi áfram og ekki verði slegið af kröfum um aðstoð og aðhlynningu heldur bætt um betur svo að flóttamenn eigi þess kost að standa á eigin fótum svo fljótt sem verða má eftir komuna hingað til lands.